Alveg Brilljant Skilnaður á Akureyri

Ef þið eruð að ganga í gegn um skilnað mæli ég með að þið skellið ykkur til Akureyrar og njótið fegurðarinnar og elskulegheita íbúanna hér norðan heiða.

Oft hef ég nú komið til Akureyrar og alltaf verð ég hrifnari og hrifnari af þessum yndislega stað. Hér virðist allt gott vera í boði (menning, listir, fegurð, ást) og það besta er að streitan sem fylgir stórborginni Reykjavík fyrirfinnst ekki hérna. Í göngugötunni upplifir maður ró og stemmningu - þó fullt sé af fólki - og allir brosa og heilsa eins  - sem er einstakt og maður upplifir helst í útlöndum.

Þær tvær sýningar sem hér hafa verið á leikritinu: Alveg Brilljant Skilnaður - gengu glimrandi vel og Akureyringar hlæja ekki minna en Reykvíkingar (eða vestfirðingar ef að því er að skipta!). Gaman verður að fylgjast með áhorfendum á næstu tveimur sýningum.

Leikhúsið hér er einstakt. Það vita allir sem leikið hafa á leiksviðinu í gamla fallega leikhúsinu að andrúmsloftið er afar sérstakt og það eru forréttindi að fá að leika þarna.

Akureyringar hafa tekið höndum saman og standa þétt við bakið á leikhúsinu sínu - flykkjast á allar sýningar og sanna hið fornkveðna að Íslendingar eru á heimsmælikvarða þegar kemur að leikhúsáhuga og leikhússókn.

Hér var  leikhússtjóri við völd sem náði til allra Akureyringa og lyfti starfseminni hérna upp í hæðir og til allrar guðs lukku fyrir leikhúsið - og Akureyringa - hefur manneskja nú tekið við leikhúsinu sem hefur einmitt þessa eiginleika sem til þarf til að búa til aðlaðandi leikhús fyrir fólkið - og er þar að auki með hjarta úr gulli - hún á eftir að lyfta þessu leikhúsi upp í enn meiri hæðir!

Takk fyrir allt þið frábæra norðan-fólk!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

já, þetta er frábær sýning hjá þér, ég sá hana fyrir nokkrum árum, þá nýskilin, voðalega gerði hún mér gott :) Takk, takk.

Akureyri er dásamlegur staður!! Fer oft þangað að versla úr sveitinni :)

Hlakka til að fara í leikhúsið í vetur á Akureyri.

Gangi þér vel með sýninguna.

Kveðja frá Blönduósi.

alva (IP-tala skráð) 30.5.2008 kl. 23:03

2 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Innlitskvitt og Bestu kveðjur annars til þín frá mér

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 31.5.2008 kl. 09:32

3 Smámynd: Garún

Æi Edda hvað ég væri til í að vera þarna með þér..

Garún, 31.5.2008 kl. 10:58

4 Smámynd: Tiger

  Já, veistu - ég held að allir hefðu gott af því að skella sér á þetta verk hjá þér Edda. Enda er það meira en lítið brilljant og stórkostlegt bara. Er búinn að sitja og horfa hugfanginn á þig í þessu verki 3svar núna og er alveg til í að sjá það enn og aftur. Ótrúlegt að ein kona skuli geta staðið svona lengi á sviðinu og bara haldið manni í fókus allan tímann! En það er líka ekkert venjuleg kerla þar á ferð - bara brilljant kerla - sem stendur í brilljant skilnaði.

Takk fyrir þetta Edda mín og vonandi ganga sýningarnar vel hjá þér! Knús í helgina þína mín kæra!

Tiger, 1.6.2008 kl. 03:25

5 Smámynd: Fararstjórinn

Vinkona mín var að skilja og fyrrverandi tengdamóðir hennar bauð henni á leikritið þitt. Þær skemmtu sér stórkostlega og sáu þetta sem lið í að halda góðu sambandi !

Fararstjórinn, 3.6.2008 kl. 20:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband