Færsluflokkur: Bloggar

Meira um skólamál ............. lifi Hjallastefnan!

Ég ætla að leyfa mér að birta kafla úr viðtali sem Anna Kristine hafði við mig um daginn og birtist í heild sinni í einhverju helgarblaðinu núna. Þessi kafli fjallar um skólamál:

--------------------------  

“Ég er mjög hrifin af skólakerfinu hér (Í USA). Það er dásamlegt að sjá hvernig tekið er á móti barni sem stendur höllum fæti málfarslega séð og fylgjast með þeim öfluga stuðningi sem veittur er. Auðvitað er erfitt að hoppa inn í unglingaskóla og eiga allt í einu að læra “mathematics” á útlensku – en mannlegu samskiptin og hlýjan er í öndvegi hér í öllum skólum og þá er allt annað svo auðvelt. Hér er lögð mikil áhersla á mannrækt. Við erum svo aftarlega á merinni í skólakerfinu á Íslandi þegar kemur að því að leggja rækt við sálina og sýna meðbræðrum okkar kærleika. Þess vegna þarf fullorðið fólk á Íslandi virkilega á því að halda að dvelja endalaust á jákvæðni- og sjálfsstyrkingarnámskeiðum. Það vantar þjálfun í  manngæsku í íslenska skólakerfið. Ég verð alltaf jafn hissa á því hvað við erum komin stutt og maður er minntur rækilega á það þegar maður kemur í aðra heimsálfu og kynnist skólakerfinu þar.” 

Börn verðlaunuð fyrir hjartahlýju 

“Hér er börnin látin skrifa undir það hvort þau samþykkja að vera jákvæð, góð og hlýleg hvert við annað; ekki stríða, ekki segja ljóta hluti og bera virðingu fyrir samnemendum og kennurunum – sem skrifa líka undir samskonar samninga og allir leggjast á eitt að gera skólaumhverfið að eftirsóknarverðu starfsumhverfi fyrir alla. Það fer t.d.heill fundur í það að ræða við börnin hvort þau séu tilbúin til að lifa lífinu á þennan hátt og brýnt fyrir þeim að það sé tekið á hverju einasta máli sem upp kemur og unnið úr því af heiðarleika og réttsýni.  Það er líka brýnt fyrir börnunum að ef þau verði fyrir áreiti eigi þau að segja strax frá því og ef þeim finnist undirtektirnar dræmar hjá þeim sem þau tala við eigi þau hiklaust að snúa sér eitthvað annað og hætta ekki fyrr en þau nái eyrum einhvers fullorðins aðila sem virkilega gengur í málið og hjálpar til við að leysa úr vandanum. Þetta er frábært. Svo er umbunað fyrir manngæsku. Litla vinkona mín, Bríet Ólína, sem er tólf ára, er búin að fá mörg verðlaun fyrir það að vera hlýleg og hjálpsöm manneskja. Hún hefur reynslu núna af þremur skólum og allsstaðar er metið við hana hvað hún er góð manneskja og hún verðlaunuð fyrir þá dyggð. Ekki minnist ég þess að neitt af þeim yndislegu, góðu og hjartahlýju börnum sem ég þekki á Íslandi, hafi nokkurn tíma verið verðlaunuð fyrir manngæsku. Þau fá mörg hver verðlaun fyrir stærðfræðikunnáttu og lestrargetu en að það sé metið að þau hafi félagsfærni og sýni mannkærleika – það er af og frá. Er það kannski skýringin á því hvað íslensk börn mælast vansæl og full af vanmetakennd ár eftir ár, samkvæmt fjölmörgum alþjóðlegum könnunum sem gerðar eru reglulega á grunnskólabörnum?"

---------------- 

Þetta var sem sagt kaflinn í viðtalinu sem fjallaði um skólamál. Málið er það með íslenska skólakerfið að það er grunnurinn sem er í ólagi. Honum þurfum við að breyta. Ef við ætlum ekki að sætta okkur við þessa ógnvekjandi þróun ofbeldis og óhamingju ungmenna Íslands, tala nú ekki um vaxandi neyslu áfengis, þá VERÐUM við að fara að leggja áherslu á mannrækt, kærleika og andlega næringu í skólum landsins. Ég vil taka það skýrt fram, áður en allir sem ábyrgir eru fyrir skólamálum á Íslandi í dag fara í massíva vörn (eins og við Íslendingar gerum gjarnan fyrst af öllu – áður en við lítum í eigin barm) að eftir að hafa fylgt fjórum börnum mínum í gegn um allt skólakerfið og fylgst með óteljandi öðrum einstaklingum lifa af, þetta oft á tíðum grimma umhverfi (eða lifa það ekki af), þá verð ég að segja að hluti kennara og skólastjórnenda er auðvitað stórkostlegt fólk – alveg einstakt í sinni röð og sannkallað hugsjónafólk. Alltof stór hluti er hins vegar á kolröngum stað í lífinu og þeir einstaklingar valda viðkvæmum sálum óbætanlegum skaða. Við verðum að gjörbreyta grunninum – og byrja á uppeldisstofnun kennara. Eina leiðin til að laga þjóðarsálina er að taka skólakerfið í gegn, það er of seint að ala upp foreldra og ekki er hægt að breyta heimilunum – skólinn er okkar eina von. Ég sting uppá því í alvörunni að Margrét Pála, höfundur Hjallastefnunnar, verði látin endurvinna frá grunni allt er lýtur að því að efla færni í mannlegum samskiptum í menntastofnunum. Hennar grundvallarstefna í uppeldinu er mannrækt, vingjarnlegheit og vellíðan allra sem vinna saman í skólunum. Hlýja og kærleikur er í öndvegi – allt annað kemur á eftir – og þá meina ég Í FRAMKVÆMD – ekki bara í orði! Samkvæmt Hjallastefnunni þurfa allir stanslaust að æfa sig í mannkærleika og sýna sjálfum sér og öðrum umhyggju og virðingu. Á hverjum degi – alla daga - er æfingaferli í vingjarnleika og í því að segja fallega hluti við samferðafólk sitt. Má ég biðja um svona grundvallargildi í öllu menntakerfi á Íslandi.


ADHD, Attention Deficit Hyperactivity Disorder,

Ungur piltur í fjölskyldunni greindist með ADHD fyrir allnokkru síðan. Af þeim 28 dögum sem hann hefði átt að sitja á skólabekk þetta haustið hefur hann einungis varið 10 dögum í skólanum. Af hverju? Jú - hann var rekinn heim hina dagana - fyrir truflandi hegðun! í augum skólans er þetta sem sagt hegðunarvandamál! Er þetta færni í að takast á við barn sem gengur ekki heilt til skógar - ég bara spyr? Ef hann væri flogaveikur eða í hjólastól væri gerð sú krafa til skólans að hann fengi aðhlynningu og aðstoð við hæfi. Hans sjúkdómur lýsir sér hinsvegar í afar truflandi hegðun - á köflum - og viðbrögð kennara og skólastjóra eru sem sagt þessi, að reka drenginn heim! Af því hann er svo "pirrandi"!

Ég ætla ekki að tíunda hér þær hremmingar og einelti sem þessi piltur hefur upplifað og skammarlega hegðun vanhæfra ábyrgðaraðila innan veggja skólans - þá missi ég mig og fer að eiga við hegðunarvandamál að stríða. Ég læt nægja að monta mig aðeins vegna þess að ég fékk svo ljómandi háa einkunn í Skólastjórnunarkúrsinum á Bifröst, ég var jafn há Friðbjörgu vinkonu minni, sem er þaulreyndur kennari og skólamanneskja til margra ára ( ég má til með að monta mig aðeins). Ég er að velta fyrir mér hvort ég eigi ekki að taka að mér grunnskóla landsins og nota námskeiðið mitt í skólastjórnun og að auki fyrirlesturinn minn um "Jákvæðni, húmor og hlýlegt viðmót" og endurskipuleggja þetta skólakerfi aðeins????

Ég ætla aðeins að velta þessu fyrir mér....


Íslenskar kvikmyndir og San Diego

Er ekki kominn tími til að blogga...?

Þar sem frá var horfið ... Veðramót er sumsé einhver besta íslenska mynd sem ég hef lengi séð. Það var ótrúlegt að sjá svona góðan leik hjá þessum ungu óvönu krökkum. Þar kemur auðvitað til frábær leikstjórn. Það er nú einu sinni svo að ef það á að ná því besta fram í leikurum - tala nú ekki um ólærðum - þá þarf fantagóða leikstjórn.

 Ég sá aðra íslenska mynd, sem ég ætla ekki að nefna á nafn , þar sem óvanur leikstjóri var að takast á við kvikmyndaleikstjórn og hafði valið amatöra í öll aðalhlutverkin. Kvikmyndaleikstjóri sem  hvorki hefur leikstjórnarþjálfun né menntun og árangurinn var satt að segja skelfilegur. Amatörarnir voru svo vondir að ég þurfti áfallahjálp þegar ég kom heim - og unglingarnir mínir líka. Þessir sömu amatörar hefðu kannski skánað töluvert - jafnvel skilað sínu prýðilega - ef þetta vesalings fólk hefði fengið einhverja leikstjórn.

Mér hefur alltaf þótt jafn undarlegt að upplifa vanmátt margra kvikmyndaleikstjóra sem þora ekki að velja atvinnuleikara af ótta við að koma upp um vankunnáttu sína í faginu. Oft hef ég heyrt unga kvikmyndaleikstjóra tauta "atvinnuleikarar eru bara svo óeðlilegir í bíómyndum" sem sannfærir mig endanlega um vangetu viðkomandi leikstjóra. Tilfellið er að ALLIR eru frekar óeðlilegir fyrir framan kvikmyndavélar - þangað til þeim er leikstýrt! Þá verða atvinnuleikararnir eðlilegir - og oft frábærir - og sumir amatörar "sleppa" fyrir horn - í besta falli! Flestir góðir leikstjórar læra af reynslunni - vita sem er að amatörar eru oft til friðs í fyrstu töku - hryllilegir í næstu fimmtán tökum og sleppa svo kannski í þeirri sextándu. Einn og einn áhugaleikari er auðvitað náttúrutalent - það er í öllum listgreinum - en þeir líða gjarnan fyrir lélega leikstjórn. Atvinnuleikarar eru auðvitað misgóðir kvikmyndaleikarar, en í 300 manna félagi er ALLTAF hægt að finna leikara við hæfi í kvikmyndahlutverk. Sannleikurinn er sá að amatör leikstjórar hafa sjaldnast fyrir því að kynna sér hverjir eru meðlimir í FÍL (Félagi Íslenskra Leikara). 

 Ég er að velta fyrir mér hvort að styrkveitendur sem láta fé af hendi rakna í íslenska kvikmyndagerð yrðu himinlifandi ef ég t.d. legði fram handrit og lista yfir alla atvinnuleikarana sem ég vildi fá til að túlka hlutverkin en veldi svo Valla pípara sem kvikmyndatökumann og Baldur smið sem hljóðmann og fengi svo Begga lögfræðing til að klippa og hljóðsetja - af því þeir eru allir náttúrutalent sem hafa gert svo ótrúlega góð heimavídeó! Ég er hrædd um að ég fengi ekki hæsta kvikmyndastyrkinn.

Í myndinni Veðramót þurfti mjög ungt fólk í stærstu hlutverkin(sem eðli málsins vegna hafði auðvitað ekki leikaramenntun) þ.e. unglingana sem sagan snýst um og þar sannast það sem ég tæpti á fyrr í pistlinum, frábær leikstjórn náði því allra besta út úr góðum atvinnuleikurum og frábærum náttúru-talentum.

Yfir í aðra heimsálfu - ég er komin til Kaliforníu. San Diego er frábær borg - ótrúlega falleg, hrein og þar leynasta perlur sem mig grunaði ekki að þessi borg lumaði á. Er það ekki ótrúlegt að það skuli koma betur út fjárhagslega, fyrir fátækan námsmann að flytja fjölskylduna vestur um haf til að geta haft í sig og á þetta fjögurra mánaða launalausa ritgerðartímabil? Segir það ekki allt um dýrtíðina á Íslandi?  Dásamlegi lífræni ÓDÝRI maturinn hér er efni í sér pistil. ...  Lifi "Wholefoods"!


Mögnuð Veðramót

Ég fór á frumsýningu í gær á nýjustu kvikmynd Umba: Veðramót og er enn með smá kökk í hálsinum.

Myndin er í einu orði sagt FRÁBÆR! Það er afar sjaldgæft að gráta og hlæja í sömu andránni - vera reiður og glaður og hata og elska í senn. Allar þessar tilfinningasveiflur upplifðu áhorfendur í Háskólabíói í gærkvöldi. Til hamingju allir aðstandendur!!

Meira um Veðramót næst....


Þá er haustið komið

Sumarið er bara allt í einu búið! Haustið er að vísu yndislegt hér á Bifröst en hvað varð um sumarið? Ég man að það var sól og hiti dögum saman, fyrir skömmu síðan og ég ætlaði einmitt að fara að drífa mig í stuttbuxurnar - þá var bara komið haust!

Við getum auðvitað ekki kvartað hér á suðvestur horninu, veðurguðirnir hafa leikið við okkur - en tímaguðirnir er í einhverju kasti held ég - mér finnst allavega mínútur, klukkustundir, dagar og mánuðir fljúga frá mér á einhverjum ofsahraða. Finnið þið líka fyrir þessu?

Ég er t.d.nýfermd - en allt í einu farin að fíflast með barnabörnum! Ég átta mig ekki alveg á þessum ofsahraða - en sem betur fer breytist ég ekkert - þó allir jafnaldrar mínir verði hundgamlir.

Nú hætti ég að stela tíma frá kvikmyndafræðinni og slekk á blogginu ... lesa, lesa og lesa meira!


Skólastjórnun

Vitið þið hvað eru til mörg greiningartæki sem ætluð eru til að stuðla að bættri skólastjórnun???

Ég er í frímínútum í augnablikinu - nota tækifærið og blogga svolítið ..... kennarinn er komin ........ slekk á blogginu ....


Verslunarmannahelgin

Það er spáð hundleiðinlegu veðri um verslunarmannahelgina. Þeir sem standa mér næst ætla að halda sig heima og kveikja á kertum og elda góðan mat. Unglingnum mínum var boðið út úr bænum en hann trúði mér fyrir því að hann væri búinn að fá nóg af útilegum þetta sumarið (það er ekkert langt síðan hann kom úr tíu daga tjald ferðalagi með bróður sínum og fjölskyldu).

 Ég þakka guði fyrir að sonur minn skuli ekki vera kominn á þann stað í lífinu að heimta að fara á útihátíðir með vinum sínum. Ég fæ andateppu af ótta, bara við tilhugsunina að missa hann í svoleiðis barbarisma. Ég er staðráðin í því að byrja núna að leggja í sérstakan verslunarmannahelgarsjóð og drífa piltinn úr landi ,a.m.k. næstu þrjú, árin svo ég þurfi ekki að takast á við þann pakka! Ég veit að þetta kann að hljóma eins og uppeldisleg uppgjöf – og ég játa mig sigraða. Ég get ekki keppt við það að „allir“ fái að fara á þessar hryllingshátíðir. Gleðihátíðir sem birtast mér ár hvert eins og uppreisn í dýragarði. Það er kannski vegna þess að það sem birtist í fréttum lýsir ævinlega útihátíðum eins og hver og ein sé Sódóma norðursins. Kannski hef ég algjörlega rangt fyrir mér – kannski eru þetta allt saman stórkostlega andlega uppbyggjandi samkomur fyrir unglingana okkar – því er bara haldið vandlega leyndu af fjölmiðlum.

Ég skil ekkert í mótshöldurum að reyna ekki að múta veðurstofunni ár hvert til að ljúga góðu veðri um allt land svo unglingarnir freistist ekki til að vera heima hjá sér í rólegheitum í stað þess að lenda í hressilegum slagsmálum og ofbeldi á útihátíðum!

 Það er búið að selja Galtalækjarskóg. Þar verða væntanlega ekki útihátíðir framar - sorglegt fyrir þá sem nutu fegurðarinnar á tiltölulega áfengislausri útihátíð (ég er að vísu ekki enn búin að fyrirgefa ungtemplurum frá því að þeir svínuðu á hópi skemmtikrafta, sem höfðu eytt mörgum mánuðum í að semja efni , ráða skemmtikrafta og undirbúa flotta þriggja daga helgardagskrá – en fóru slyppir og snauðir frá hátíðinni – það er nefnilega ekki samasem merki á milli þess að halda sig frá áfengi og halda sig frá ósannindum!)

Skemmtið ykkur vel um helgina - þrátt fyrir skítaveður!


Heimavist á Bifröst

Þá er ég komin í litla unglingaherbergið á heimavistinni á Bifröst - dálítið einmanalegt.

 En kúrsinn er skemmtilegur - Markaðsfræði Menningar hjá Halldóri Guðmundssyni - tveggja vikna törn - þá tekur næsti kúrs við í aðrar tvær vikur og að lokum hinn þriðji - eins gott að halda vel á spöðunum. Í september hefst svo masters-ritgerðar vinnan.

Þá er nú að ákveða hvað maður ætlar að verða þegar maður verður stór! 

Áður en ég sest niður við ritgerðaskrifin ætla ég að fara í síðustu kvennaferðina mína í bili.             Við Sóley Jóhanns ætlum að fara með 20 konur til Frankfurt 3. - 8.sept. á ótrúlega fallegt hótel í yndislegu umhverfi.

Gleði- og sjálfsstyrkingarnámskeið! Svo verður gert hlé á kvennaferðum - þangað til ég opna ferðaskrifstofuna - kvennaferðir.is.

 ... Og stofna kaffileikhúsið með lífrænu veitingunum - þar sem einnig verður boðið upp á fjölbreytt námskeið - og lagður grunnur að  stofnun kvennabanka  ... og alþjóðlegu heilsusetri í  Hveragerði ... og ...

Nú eða kannski tek ég bara við Borgarleikhúsinu ... eða Listahátíð... eða Icelandair... ?

Ég ætla aðeins að velta þessu fyrir mér fram að áramótum þegar ritgerðin er í höfn.


Sígaunablóð og draslsöfnunarárátta

Ég er með æðiber í rassinum. Það sagði amma mín við mig. Ég er nefnilega haldin þeirri áráttu að verða með reglulegu millibili að skora sjálfa mig á hólm, fleygja öryggismottunni og hræða mig svolítið. Ég pakka gjarnan niður einhverju dóti og hendist út á land eða út í heim og kippi með mér þeim fjölskyldumeðlimum sem ég ræð yfir hverju sinni. Einu sinni flutti ég til Mallorca í 5 mánuði og gerðist fararstjóri. Næst var það 6 mánaða dvöl á Ródos þar sem ég var líka í fararstjórastarfi. Ég hef búið á Sólheimum í sjö mánuði þar sem ég fékk að halda utan um besta leikhóp í heimi, ég bjó á Bretlandseyjum í eitt ár og sl. sumar bjó ég á Bifröst og er einmitt að pakka niður núna til að ljúka háskólanáminu þar og mun hreiðra um mig á heimavistinni fram í ágúst - svo hendist ég í nokkra mánuði til Californíu til að klára meistararitgerðina mína.

Ég trúi aldrei mínum eigin augum þegar ég fera að skipuleggja tiltekt vegna svona flutninga. Hvernig getur lítil fjölskylda safnað svona miklu drasli?

Mig skortir gjörsamlega þá hæfileika að geta gengið skipulega til verks við að koma reglu á umhverfi mitt. Ég snýst bara í hringi og róta í hrúgum og sest svo bara út í garð. Ég væri sennilega flutt út í garð ef Garún mín og Guðbjörg, plús Fríða og Margrét hefðu ekki ráðist á haugana og byrjað að flokka draslið í snyrtilegar hrúgur. Svona eru verndarenglarnir góðir við mig, senda mér bestu vini í heimi. Þessar dásamlegu vinkonur mínar komu að mér þar sem ég starði sljóum augum á sláttuvélina og tautaði í sífellu að það væru ótrúlega fáir dagar þar til leigjandinn minn tæki við íbúðinni og allt væri ennþá á hvolfi.

Garún breyttist í teiknimyndafígúru þar sem hún brá sér í iðnaðarmanna-samfesting, tók sér kúbein í hönd og braust inn í litlu geymsluna sem einu sinni var sjónvarpsherbergi og eftir smá stund flaug allt draslið út á gang þar sem hinar tóku við því og bjuggu til snyrtileg kennileiti þannig að kvíðasjúklingurinn í garðinu gæti tekið ákvarðanir um hverju mætti henda og hvað ætti að varðveita.

Hugsa sér að eiga svona vini. Ég er búin að bjóða þeim öllum að sitja úti í þeirra görðum í kvíðakasti þeim til stuðnings þegar kemur að tiltekt eða flutningum í þeirra fjölskyldum.

Auðvitað ætti ég að henda helmingnum af draslinu sem er í kössum í óteljandi geymslum út um allt - ég veit það alveg .. en ég get það ekki. 

Ég viðurkenni vanmátt minn

 Ég ætla að stofna sjálfshjálparsamtök draslara fyrir fólk eins og mig, sem haldið er draslsöfnunaráráttu - þá getum við hist reglulega og stutt hvert annað í draslsöfnuninni.

Velkomin í hópinn!


Hvað er að Lúðvík??

Ég beini þessu til þín, Lúðvík Geirsson bæjarstjóri í Hafnarfirði.

Fór það fram hjá þér að meirihluti Hafnfirðinga er með "fulde fem" (eins og amma mín sagði) og greiddi atkvæði gegn stækkun álversins? Við greiddum ekki atkvæði gegn einhverju deiliskipulagi heldur GEGN STÆKKUN ÁLVERSINS!!!!! 

Ætlið þið - svarti blettur Samfylkingarinnar - að láta okkur íbúa Hafnarfjarðar ganga í gegn um allt bullið og vitleysuna einu sinni enn? Eigum við aftur að rífast og gráta í öllum fjölskylduboðunum og kjósa svo enn einu sinni gegn stækkun þessa mengunarskrímslis? Þetta stóriðju-ferlíki sem bráðum verður í miðjum Hafnarfjarðarbæ og eyðileggur ekki bara heilsu okkar heldur líka þetta fallega umhverfi .  Hvað á þessi vitleysisumræða eiginlega að þýða?

Þarf maður að kjósa Sjálfstæðisflokkinn til að koma einhverju vitrænu í gang þarna á bæjarskrifstofunum? 

Ég vona að þú fáir þessi skilaboð Lúðvík og sjáir að þér og steinhættir við þetta bull. Mundu að Hafnfirðingar eru líka með heila - við getum látið okkur detta ýmislegt annað í hug en umhverfismengandi álframleiðslu í garðinum okkar til að framfleyta okkur. Ég minni þig á að aðeins agnarlítill hluti teknanna sem þú færð í bæjarsjóðinn kemur frá þessu álveri.

Að lokum ætla ég að bjóða mig fram sem bæjarlistamann Hafnarfjarðarbæjar árið 2008 - því verður áreiðanlega tekið fagnandi á næsta fundi hjá ykkur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband