Færsluflokkur: Bloggar

Þegar álverið fer

Ég var að aka frá Keflavíkurflugvelli í morgun og ók þá í gegn um þykkt mengunarský frá álverinu í Hafnarfirði (bráðum í miðbæ Hafnarfjarðar!) og það rifjaðist upp fyrir mér reynslusaga vinkonu minnar í Hvalfirðinum sem lætur reglulega mæla búfénað sinn til að kanna eiturefnaáhrif nábýlisins við Járnblendiskrímslið á Grundartanga. Á síðustu 5 árum hafa eiturefnin í litlu lömbunum hennar margfaldast. Og við megum vart mæla af stolti þegar við tölum um "hreina" lambakjötið okkar!   Verði ykkur að góðu.

Hvað verður um alla sem missa vinnuna þegar álverið fer úr Hafnarfirði? Þeir sem meta stóriðju meira en hreina náttúru og góða heilsu spyrja gjarnan þessarar spurningar og horfa ásökunaraugum á okkur sjálfselskupúkana sem berum hag starfsmanna álversins ekki fyrir brjósti.

Svarið er t.d.: Bjóða þeim vinnu við stóra skemmtigarðinn og menningarsvæðið sem mun rísa þar sem álverið stendur núna! Og spyrja svo á móti: Hvað varð um alla Íslendingana sem misstu vinnuna þegar herinn pakkaði saman og fór?  Svarið er: Reykjanesbær brást skjótt við - allir lögðu hönd á plóg og hugmyndir í púkk og síðustu fréttir herma að allir sem unnu hjá Bush hafi fengið  vinnu í sinni heimabyggð. 

Þetta með skemmtigarðinn í Straumsvík er ein af fjölmörgum frábærum hugmyndum sem fyrir liggja í hugmyndabankanum og verður gaman að skoða þegar skipuleggja á landsvæðið þar sem álverið stendur nú.

Ég minni svo landsmenn á þá staðreynd að sú verðmætasköpun sem verður til í hagkerfinu á einu ári, vegna menningar og lista, skilar um 5% til landsframleiðslunnar, fjórfalt meira en landbúnaður og þrefalt meira en stóriðjan! Vefst það fyrir einhverjum hvað þarf að efla í þessu þjóðfélagi?

 

Það er kominn 17. júní!

Er eðlilegt að fá alltaf sömu tilhlökkunartilfinninguna gagnvart skrúðgöngum, blöðrum og skemmtiatriðum, þegar maður er komin þetta mikið yfir 25 ára aldur?

Ég er m.a.s. alltaf jafn spennt að sjá hver verður fjallkonan - var að heyra að það hefði verið hin stórglæsilega vinkona mín Sólveig Arnarsdóttir þetta árið - excellent choice - eins og þjónninn sagði þegar ég bað um maukaðar sveskjur með salatinu mínu í LA á dögunum.

Mér eru minnisstæð  þrjú prinsipp sem ég lagði upp með þegar ég útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands árið 1978 (fyrir utan þau prinsipp að leggja ævinlega sál mína í hvert einasta verkefni sem ég tækist á hendur) þau voru: 1) Aldrei að leika í auglýsingum (það tók 5 ár að brjóta það prinsipp, ég stóðst ekki tilboð uppá 500.000 íslenskar krónur fyrir eina sjónvarpsauglýsingu árið 1983!) 2) Aldrei að birtast nakin á leiksviði eða í kvikmyndum (svolítill bömmer að hafa aldrei þurft að hafna svoleiðis tilboði) 3) Aldrei að fara á samning hjá atvinnuleikhúsunum heldur reka eigið leikhús fram í rauðan dauðann! (braut það prinsipp fyrst fyrir uppáhaldsleikstjórann minn Þórhildi Þorleifsdóttur þegar hún var leikhússtjóri Borgarleikhússins og aftur fyrir ljúfmennið Magnús Geir hjá Leikfélagi Íslands) 4)Aldrei að vera fjallkonan! Ég er að hugsa um að brjóta þetta prinsipp núna og býð mig hér með fram sem Fjallkona Íslendinga árið 2008 (þá verða jafnöldrur mínar á fimmtugasta og sjötta aldursári en ég 35 ára)

Gleðilegan þjóðhátíðardag!!!


Diskó

Það er ólýsanleg tilfinning að tjútta með hóp af kerlingum eftir Elvis lögunum!!

Endorfínið sem spýtist um allan líkamann er svo magnað að maður er í gleðivímu allan daginn.

Ég skora á ykkur að hendast fram úr rúminu á morgnana og beint í dansinn - þetta er slíkur vímugjafi að maður hættir ekki þessu stuði þegar maður er einu sinni kominn á bragðið.

Ég hef hingað til verið styrktaraðili heilsuræktarstöðvanna, keypt kort og ekki mætt, mér finnst svo óbærilega leiðinlegt að stunda líkamsrækt. En að dansa eins og fífl án þess að nokkur sé að segja manni til um hvernig maður á að reyna á sig eða teygja og toga - það er æði!

Drífið ykkur af stað og prófið þetta, maður verður háður vímunni.


Steina er svo fyndin

Skruggu góður penni hún Steinunn Ólína vinkona mín. Ég las allt bloggið hennar í morgun og hlakka alltaf til að lesa pistlanna hennar í Morgunblaðinu þ.e.a.s. þegar blaðburðaraðilinn ratar hingað í Kinnarnar. Get ekki beðið eftir framhaldi af lækna sápunni

 Ég er að velta fyrir mér hvort ég eigi að reyna að ráðast á fatahrúgurnar sem hylja allan húsbúnað hér í íbúðinni eða hvort ég eigi að byrja á pappírsflóðinu og reyna að finna skrifstofuna mína undir sneplafjallinu. Hvernig er þetta hægt? Hvernig getur ein fullorðin manneskja dreift einhverjum óskilgreindum hryllingi í kring um sig á örskömmum tíma og breytt tiltölulega venjulegri íbúð í vígvöll? Ég þrái skipulag og ég hata óreiðu! Af hverju er umhverfi mitt þá svona? Ég þrái auðvitað líka að geta sungið eins og engill og dansað eins og Ginger Rogers, en svona er gjöfunum misskipt í þessum heimi.

Ég sparkaði upp hurðinni inn í þvottahús og kramdi 3 kassa sem höfðu dottið úr hillu og gerðu það að verkum að ég þurfti að beita ofbeldi til að ná að stinga höfðinu inn um gættina. Ég ætti kannski bara að gera eins og gamanleikkonan Phyllis Diller sagðist gera: grafa óhreina þvottinn minn í bakgarðinum!

Skilaboð til Garúnar: Ertu búin að fá þér hveitigrasvél? Elsku drífðu í því - ég er ekki vöknuð fyrr en ég er búin að skella í mig staupi af hveitigrassafa og fá mér Alóa Vera safann (sem bragðast eins og fíflamjólk) og hella svo ofan í mig olíunni hans Údó, áður en ég set alla ávexti sem ég finn í blandarann og bý mér til hressandi heilsudrykk til þess að ég geti hent mér til Lindu í Hress og dansað eins og vitleysingur ug sungið með Dave Clark Five .. af hverju mætir þú aldrei elsku Garún mín? Eða þið hinar? Drífið ykkur til mín á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum og fáið ykkur snúning. Ótrúlega hressandi og mikill endorfín gleðigjafi.


Nýr heimur

Ég er svolítið eins og lítið barn í leikfangaverslun - þetta er alveg nýr heimur, fullt af fólki að spjalla saman og ég þekki m.a.s. ótrúlega marga í þessu blogg partýi.

 Mér finnst ég hafa verið svolítið eins og Palli var einn í heiminum þennann veturinn. Ég hef nánast ekki gert neitt annað en að vinna og læra, skrifa ritgerðir, vinna og læra meira .... og vinna. Þegar ég var búin að skila síðustu vorritgerð minni hafði ég mestar áhyggjur af því að ég ætti hvorki fjölskyldu né vini lengur. Hvar er allt fólkið mitt?

Hvað tekur nú við? Jú - undirbúningur fyrir sumarönnina á Bifröst og tiltekt í ruslahrúgunni sem einu sinni var íbúðin mín.

Ég er með tvær íbúðir, fullbúnar húsgögnum, til leigu í nokkra mánuði. Ef þið þekkið heiðarlegt og traust fólk, sem þarf tímabundið húsnæði, megið þið endilega láta það hafa samband við mig.

Íbúðirnar eru í sama húsinu á yndislegum og rólegum stað í Hafnarfirðinum.


Ég er byrjuð að blogga!!!!

Hugsa sér.. fyrir u.þ.b. 10 mínútum síðan hafði ég ekki hugmynd um hvernig  ætti að skoða þessar margumræddu bloggsíður Íslendinga, sem allir virðast vera að lesa, hvað þá að það hvarflaði að mér að búa til mína eigin bloggsíðu og taka þátt í húllumhæinu! Svo birtis Garún mín - með Guðbjörgu mína - og ég er orðin bloggari! JESSSS!!! Ég er tölvusnillingur!

Ég strengi þess heit að koma reglulega með nýjustu hollustu upplýsingarnar fyrir hana Garúnu mína.

Veistu t.d. elsku Garún mín að Udo´s olían getur bjargað mannkyninu? Maður verður auðvitað að neyta hennar .. ég gef þér flösku við tækifæri elsku Garún mín og læt fylgja nokkra tófú böggla og þú verður fit as a fiddle!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband