Það fer fátt meira í taugarnar á mér en frasinn "konur eru konum verstar". Konur virðast ekki mega gera á hlut annarra kvenna án þess að hinn og þessi keppist við að halda þessu fram. Ég bíð alltaf eftir því að þetta æði renni yfir en það virðist ætla að verða löng bið.
Um daginn fékk einhver erlend fegurðardrottning piparúða í andlitið og kjólunum hennar var stolið. Bingó! "Konur eru konum verstar," skrifaði einhver sem fann sig knúinn til að blogga um fréttina. Þar áður voru knattspyrnukonur sagðar hafa tekið sig saman og kosið einn leikmann fram yfir annan. Virtur þjálfari kom í viðtal og lýsti því yfir að "konur væru konum verstar".
Ég verð síðust til þess að halda því fram að konur séu alltaf til fyrirmyndar í samskiptum sín á milli. Ofangreind dæmi sanna annað. Hins vegar heyrði ég engan segja að karlar væru körlum verstir þegar Björn Ingi sagði skilið við Vilhjálm & co. Júdas sveik Jesú en enginn hefur séð ástæðu til þess að klína því á hann að hafa verið vondur við allt sitt kyn. Börn bíta hvert annað og skilja útundan. Samt hrista fóstrurnar ekki hausinn og tauta: "Ussu, sussu. Börn eru börnum verst." Enginn segir heldur neitt í þessa átt eftir slagsmál í miðbænum þar sem karlmenn ganga í skrokk hver á öðrum helgi eftir helgi. Öðru máli gildir í þeim örfáu tilfellum sem konur ráðast hver á aðra. Þá er alltaf einhver tilbúinn til að halda því fram að 50 prósent mannkyns geri sér far um að vera andstyggileg innbyrðis.
Tilgangurinn með þessum orðum er ekki að halda því fram að það séu eftir allt saman karlar sem eru hverjir öðrum verstir. Eða að konur séu körlum verstar, að karlar séu konum verstir eða eitthvað þaðan af heimskulegra. Mér þætti bara vænt um að fólk sparaði alhæfingarnar og hlífði mér og mínu kyni við að vera sett í sama flokk og þær sem klína naglalakki í augun hver á annarri, stela kjólum og skilja útundan í fótboltaleik.
Húrra fyrir Sigrúnu Ósk!