Færsluflokkur: Bloggar
8.2.2008 | 20:14
Íslendingar einstakir
Það er ekki á okkur logið þegar kemur að samstöðu og samhjálp. Ég á orðið nokkuð margar sögur í pokahorninu er varða einstaka hjálpsemi Íslendinga. Síðast í dag var ég stödd í lest frá Kaupmannahöfn til Árósa (þar sem ég ætla að skemmta Íslendingum á þorrablóti) og var að panta samloku og vatn, þar sem ég hafði sofið af mér morgunverðinn í flugvélinni og ekki haft tíma til að kaupa nesti fyrir 3ja tíma lestarferð. Ég borgaði með korti, þar sem ég hafði heldur ekki haft tíma til að taka út danskar krónur í hraðbanka, en posinn las ekki segulröndina - ekki heldur á hinum þremur kortunum sem ég reyndi! Ég neyddist til að skila nestinu - með gaulandi garnir - þá reis upp kona úr næsta sæti og mælti á íslensku: "Ég skal borga þetta - ekkert mál". Mér varð svo mikið um að ég starði bara á hana dágóða stund og reyndi svo að malda í móinn en hún var búin að borga reikninginn áður en við var litið svo ég endaði með því að þiggja góðgerðirnar af konunni. Ég bað hana endilega að gefa mér upp reikningsnúmer svo ég gæti lagt inn á hana en hún hristi bara höfuðið og sagði: "Verði þér að góðu". Ótrúleg hjálpsemi. Ég fékk allavega nafn og símanúmer svo ég gæti hugsanlega launað henni greiðann einhverntímann. Takk Linda - þú ert góð kona!
Þetta er ekki í eina skiptið sem einhver stígur fram býður mér hjálp sína. Í fyrra var ég á bensínstöð hjá Smáralind og ætlaði að leigja kerru. Þegar kemur að því að undirrita samning þurfti að gefa upp kreditkortanúmer. Ég hafði gleymt kortunum heima og reyndi að hringja í alla fjölskyldumeðlimi eftir hjálp, en náði ekki í neinn. Þá segir ein afgreiðslukonan: "Ég skal bara setja mitt kortanúmer, svo þú getir tekið kerruna núna - ekkert mál, ég veit að þú ert strangheiðarleg manneskja". Ég sver það ég fékk tár í augun - eru engin takmörk fyrir því hvað Íslendingar eru tilbúnir að gera fyrir náungann?
Þriðja atvikið sem ég man eftir átti sér stað þegar ég var barnung í Leiklistarskólanum og við kærustuparið ætluðum að fara í bíó. Það var búið að hafa mikið fyrir því að redda barnapíu og þegar við drifum okkur upp í gamla Fíat skrjóðinn, prumpaði hann bara á okkur og neitaði að fara í gang. Við ákváðum að splæsa á okkur leigubíl og taka svo bara strætó heim - klukkan var orðin svo margt að við vorum að missa af myndinni. Þegar leigubíllinn var kominn að Laugarásbíói og ég ætlaði að fara að borga kom í ljós að veskið var heima!!!! Það myndaðist rosalega erfið stemmning hjá kærustuparinu aftur í leigubifreiðinni og ég tautaði að við þyrftum bara að fara heim aftur. Þá sneri leigubílsstjórinn sér við og sagði: "Þið þurfið ekkert að borga bílinn núna". Ég tautaði einhver þakkarorð en bætti við að við hefðum ekki fyrir bíómiðunum heldur. Leikubílsstjórinn náði í veskið sitt orðalaust og dró upp seðla og sagði:" Það er allt í lagi - ég lána ykkur bara fyrir bíóinu líka" Við göptum. Tárvotum augum þökkuðum við þessum ótrúlega elskulega manni fyrir að bjarga tilvonandi hjónabandi okkar - gáfum honum nöfnin okkar, heimilisfang og símanúmer og rusluðumst út úr bílnum og í bíó.
Enn og aftur - svona eru Íslendingar. Redda öllu. Leggja lykkju á leið sína til að hjálpa náunganum og sýna ótrúlegt traust. Vissuð þið að orðið "redda" er ekki til í öðrum tungumálum?
Ég er þakklát fyrir mitt fólk xxxxxxxxxxx
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
27.1.2008 | 23:01
Vetur ... o.fl.
Ég verð að segja að ég er alveg búin að fá nóg af íslenska vetrinum. Hvernig í ósköpunum heldur fólk haus í svona veður-hremmingum???
Litla kraftaverkið hennar Evu dóttur minnar er svo undurfallegt að maður situr bara og horfir í forundran á piltinn. Hjartans þakkir fyrir allar hlýju kveðjurnar frá ykkur bloggvinir mínir.
Ég óska Magnúsi Geir vini mínum innilega til hamingju með stöðu Borgarleikhússtjóra. Hann er svo sannarlega vel að þessu kominn pilturinn - búinn að sýna og sanna að hann er kraftaverkamaður í leikhúsi. Ég vona innilega að Akureyrarleikhúsið fái frábæran stjórnanda sem heldur jafnvel á spöðunum og Magnús Geir hefur gert síðustu ár.
Þá er næsta verkefni hjá mér (fyrir utan að klára ritgerðina mína) að bretta upp ermarnar og klára viðskiptaáætlunina fyrir næsta verkefni. Það er leyndarmál í bili en verður kynnt með látum þegar þar að kemur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
25.1.2008 | 09:50
Kraftaverk!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
24.1.2008 | 01:04
Beðið eftir litlum dreng
Við fjölskyldan bíðum eftir litlum dreng sem er á leiðinni inn í þennan heim. Við reiknuðum með að hann kæmi til okkar fyrir 10 dögum síðan og höfum nokkrum sinnum reynt að senda honum skilaboð þess efnis að við séum öll tilbúin til að taka á móti honum og elska hann óendanlega mikið og skilyrðislaust.
Hann lætur ekki reka á eftir sér og er enn að bíða eftir hárréttu augnabliki til að takast á við öll þau verkefni sem bíða hans hér á jörðinni. Mamma hans er orðin ósköp þreytt og bíður spennt eftir að hitta þennan gleðigjafa. Við bíðum reyndar öll eftir að kynnast þessu litla kraftaverki sem allt líf okkar snýst um þessa dagana.
Lítil orðsending til þín litli dóttursonur minn: Ég vil alls ekki vera með neina ýtni - en værirðu til í að drífa þig til okkar sem allra fyrst svo við getum byrjað að læra af þér allt um kærleikann og deila lífi okkar með þér??
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.1.2008 | 01:31
Námskeið - fyrirlestrar - fjör!
Ég hoppaði heim til Íslands í smá vinnutörn - ætla svo að drífa mig aftur út í sólina í Kaliforníu og leggjast yfir ritgerðina mína.
Afskaplega er gott að eiga land eins og Ísland. Ég gleymi því stundum hvað ég er heppin að búa hérna á þessari undurfallegu (köldu!) eyju sem er með þessa sérstöku orku.
Ég fyllist einhverjum ólýsanlegum krafti þegar ég hendist á milli fyrirtækja til að halda námskeið og fyrirlestra og nýt þess í botn að þramma í snjónum - dag eftir dag - með grýlukerti í nefinu.
Það eru forréttindi að fá að vinna með öllu þessu frábæra fólki hérna heima. Íslendingar eru einstakir - ég sé það alltaf betur og betur eftir því sem ég þvælist meira um heiminn.
Mér finnst þessi fjölbreytni í lífi mínu svo spennandi. Ég fæ að stunda nám - halda námskeið og fyrirlestra - vinna að leiklist (þó næsta verkefni verði að bíða eitthvað fram á vorið) - stjórna veislum og vera með uppistand ( tuttugasta árið í röð!!!) og þeytast á milli heimsálfa. Er hægt að biðja um meira fjör í lífinu?
Ég minni mig í sífellu á nauðsyn þess að þakka fyrir allt það góða sem ég á - og upplifi. Það sem skiptir mig mestu máli eru allar þær dásamlegu manneskjur sem ég á samskipti við - fjölskyldan mín, vinir, samstarfsaðilar - þetta er sá ómetanlegi fjársjóður sem maður kann æ betur að meta með aldrinum.
Munum að vera góð hvert við annað og njóta samverunnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
14.1.2008 | 23:19
.......
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.1.2008 | 19:16
Stormviðvörun í Kaliforníu!
Einn unglingurinn á heimilinu kom hlaupandi út úr sjónvarpsherberginu í gærmorgun og hrópaði: "Shit maður - sáuð þið veðurfréttirnar - storm-viðvörun hér í San Diego - og allri Kaliforníu ... geeeðeigt mar!!". Heimilisfastir Kaliforníubúar bentu honum á að storm-viðvörun á Íslandi og storm-viðvörun í Kaliforníu væri ekki alveg það sama og að hann skyldi fylgjast með veðrinu fram eftir kvöldi og meta sjálfur ástandið. Seint í gærkvöldi og í morgun var óveðrið mætt: Tiltölulega notalegt íslenskt haustveður með rigningu og örlítilli golu, sem nægði rétt til þess að hægt var að sjá trjágreinarnar hreyfast aðeins - í fysta skipti í nokkra mánuði! Stórkarlalegir Íslendingar hlógu hátt og hugsuðu heim þar sem alvöru stormur rífur þök af húsum og þeytir sumarhúsum út í hafsauga!
Nú eru aðeins örfáir dagar eftir í veðursældinni og pálmatrjánum - en ég er full tilhlökkunar að takast á við alvöru veðurguði og fjölbreytilegt samfélag íslenskra hörkutóla.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.1.2008 | 07:42
Herbergi til leigu... í San Diego
Er einhver á leiðinni til San Diego? Ég veit um herbergi til leigu - í fallegu húsi í yndislegu hverfi sem heitir La Jolla. Þetta er einstaklega falleg borg og hér skín sólin nánast 365 daga á ári.
Ég er orðin mjög flink að vafra um ferðasíðurnar Expedia og Travelocity og tilfellið er að kostnaðurinn við að fljúga alla leið hingað til Kaliforníu er ótrúlega lítill - yfirleitt er hægt að fá miða fram og til baka fyrir tæplega sextíu þúsund krónur (heildarverð). Minneapolis er yfirleitt hentugasti áfangastaðurinn til að millilenda og taka flug hingað til SD.
Sendið mér endilega tölvupóst ef þið viljið vita meira um þessa gistiaðstöðu í borginni fögru.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.1.2008 | 10:55
Áramótaskaup ... og sjálfhverfir áhorfendur
Ég spyr: Hverjum kemur við hvað MÉR eða ÞÉR finnst um einn klukkutíma þátt sem sýndur er á gamlárskvöld?
Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart hvað pirringurinn og illgirnin er mikil í skrifum þeirra Íslendinga sem ekki hafa hlegið nægju sína að hefðbundnum gamanþætti sem sýndur er einu sinni á ári. Svívirðingum ónotahylkjanna rignir yfir aðstandendur þessa gamanefnis eins og þeir hafi framið stórglæp og þeir sem bölsótast mest eru sannfærðir um að þeirra smekkur sé hinn eini sanni og að allir aðrir séu aumingjar og fífl!
Við skulum átta okkur á því að það er ógjörningur að gera öllum til hæfis með einum fimmtíuogfimm mínútna spaugþætti á ári. Það er staðreynd að stór hluti þjóðarinnar er himinlifandi yfir áramótaskaupi hverju sinni - og það er líka staðreynd að stór hluti sömu þjóðar er skítpirraður yfir sama efni ... það er bara spurning um hvor hópurinn er háværari á opinberum vettvangi.
Það má líka benda á að yfirleitt eru afar skýr kynslóðaskipti í smekk á húmor.
Aðstandendur Áramótaskaupsins 2007 eiga alla mína samúð ... ég samgleðst þeim líka innilega - allt eftir því hvorum hópnum ég tilheyri eftir að ég er búin að berja augum bitbeinið í ár.
Munið svo góðir áhorfendur að allir listamenn sem að framleiðslu gamanefnis koma eru alltaf að gera sitt allra besta og leggja mikinn metnað í að vanda vinnubrögðin - og það er svo sannarlega einlægur vilji þeirra sem ábyrgðina bera að reyna að gleðja sem flesta.
Ég veit ekki hvort að þjóðarsálinni verður nokkuð breytt en við getum reynt að hætta að einblína ofan í eigin nafla og hugsanlega getum við einhverntímann fært umræðuna á aðeins hærra plan til dæmis með því að sýna virðingu þeim listamönnum sem leggja höfuðin á gapastokk þjóðarinnar ár hvert og taka að sér það ómögulega verkefni að reyna að fá ALLA þjóðina til að hlæja saman í lok árs.
Ég færi ykkur - sem nú eruð í kjötkötlum bloggara og fjölmiðlaspekinga - mínar bestu þakkir fyrir að leggja heiður ykkar að veði þetta árið og axla þá ábyrgð að öll þjóðin grenji úr hlátri á gamlárskvöld árið 2007!
Svo til að draga umræðuna niðrá lægra plan þá fullyrði ég að ALLIR elskuðu uppáhalds áramótaskaupin MÍN !!! ALLIR eru sammála um að skaupin 1981 1984 og 2005 séu langfyndnustu og bestu skaup allra tíma!!! Ef einhver vogar sér að vera ósammála MÉR er sá sinn sami algjör..../&%$%&//(/&%# og (/&&%$$%// og ætti að steinhalda kj../(%%$#& OG HOPPA UPP Í %$&/&&%#/
GUÐ GEFI YKKUR ÖLLUM GLEÐILEGT NÝTT ÁR!!!!!
PS. Til að forðast allan misskilning þá vil ég taka það skýrt fram að ég hef ekki séð umrætt Áramótaskaup. Ég hef sjálf tengst fimmtán Áramótaskaupum frá því árið 1978 (leikið í þeim og/eða skrifað hluta af þeim) og fundist þau misgóð eins og gengur (allir sem að þeim komu unnu sitt starf af miklum heilindum og reyndu að gera þjóðinni til hæfis) - en ÖLL kölluðu þau á öflug opinber viðbrögð, ýmist aðdáenda eða hatursmanna! Dásamleg þjóðarsál!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
1.1.2008 | 19:15
Gleðilegt nýtt ár!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)