Björgum Íslandi!!

Ég las Fréttablaðið um helgina. Stjórnmálamenn svöruðu spurningum sem lagðar voru fyrir þá og þar kom fram að ef Bjarni Benediktsson og Sjálfstæðismenn taka völdin (sem auðvitað er mjög ólíklegt þar sem flokkurinn er að eyðast upp!) þá verður Ísland rústir einar eftir örfá ár. Flokkurinn vill fylla landið af álverum og olíuhreinsunarstöðvum og gera þessa fallegu eyju að öskuhaugum!

Eini flokkurinn sem ég treysti til að vernda það mikilvægasta sem við eigum - náttúrufegurð okkar -  eru Vinstri Grænir. Ég hef tekið þá ákvörðun að kjósa þann flokk og berjast með þeim til síðasta blóðdropa fyrir hreinu fallegu landi því það er mikilvægasta auðlind okkar - miklu meira virði en nokkur störf í stuttan tíma. Ál hleðst upp um allan heim og hrynur í verði, olíuhreinsunarstöðvar eru mengandi viðbjóður hvar sem þær rísa og enginn vill hafa þær í nágrenni við sig.

Byggjum upp landbúnað, lífræna ræktun og ferðamannaiðnað Það er framtíðin!


Draumalandið - það er skylda allra Íslendinga að sjá þessa mynd!!

Ég fór grátandi út af myndinni um Draumalandið.

Ég skammast mín fyrir að hafa látið ljúga mig fulla um nauðsyn þess að nýta "vistvæna" raforku. Ég skammast mín fyrir að hafa ekki fylgst betur með eyðileggingunni á landinu okkar. Ég skammast mín fyrir að hafa ekki hrópað á torgum með þeim sem sáu hvert stefndi. Ég skammast mín fyrir að hafa ekki kynnt mér málin betur.

Sérstaklega skammast ég mín þó fyrir nautheimska valdhafa sem hafa selt sál sína gráðugum glæpafyrirtækjum sem hafa það eitt að markmiði að skítnýta auðlindir okkar - og annarra vanþróaðra ríkja - og hrækja svo ónýtum afgöngum út í hafsauga!


Skósmiðurinn minn á Akureyri

Hann er yndislegur! Heitir Kolbeinn og gerir við alla okkar skó (leikkvennannna í "Fúlar á móti").

Ástæðan fyrir því að við flytjum alla okkar skó norður yfir heiðar er sú að Kolbeinn er snillingur! Hann getur gert við hvaða túttur sem er. Ég hef komið með öll þau skópör  sem aðrir skósmiðir hafa hent í hausinn á mér og fullyrt að ættu heima í Sorpu - og Kolbeinn hefur gert þá eins og nýja!

Hann er líka elskulegur og hlýr gleðigjafi og til að kóróna allt þá kostar skít á priki að fara með skóna í viðgerð til hans!

ÁFRAM KOLBEINN!!

 


Þjálfun í tjáningu

Það gengur hægt að breyta skólakerfinu ... en gengur samt.

Ég hef haldið námskeið sl. 15 ár fyrir allskonar hópa, félagasamtök og fyrirtæki. Vinsælustu námskeiðin ganga út á að  þjálfa færni fólk í tjáningu, og byggist kennslan á tækni leikarans.

Það sem hefur komið mér mest á óvart er hvað mikið af vel menntuðu fólki þarf á svona hjálp að halda. Ég fæ iðulega presta, lögfræðinga, allskonar leiðbeinendur, kennara og fleiri starfsstéttir sem vinna störf sem meira og minna krefjast mikillar færni í að nota tjáningartækin af öryggi.

Skólakerfið hefur brugðist algjörlega þegar kemur að þessari þjálfun. Ég geri ævinlega skyndikönnun hjá þáttakendum og spyr hverjir hafi búið við skólauppeldi þar sem æfð var reglulega þjálfun í tjáningu. Af 20 - 30 manna hópum er stundum einn, kannski tveir sem rétta upp hendurnar. Aðrir hafa setið á rassinum meira og minna alla sína skólagöngu og vonað að þeir verði látnir í friði af kennurunum!

Í framhaldsskólum er áfangi sem kallast "Tjáning" og er undir hælinn lagt hvað tekið er fyrir í þessum áfanga. Það fer eftir skólum og leiðbeinendum hvað nemendum er boðið er uppá mikla þjálfun.

Háskólarnir bregðast hlutverki sínu gjörsamlega sýnist mér . Nemendur eru í æ ríkara mæli látnir standa upp og kynna verkefnin sín - en fá ekki kennslu í því að beita líkama sínum og rödd þannig að þeir nái að halda athygli áhorfenda.

Það eru sem betur fer æ fleiri þáttakendur á námskeiðunum mínum, sem tilkynna mér sérstaklega að þeir sjái mikinn mun í mörgum skólum barna sinna - eða barnabarna - þegar kemur að þessari nauðsynlegu þjálfun.

Ég vona innilega að þetta eigi eftir að vera það sem fær mesta áherslu í skólauppeldi framtíðarbarnanna - mannrækt og þjálfun í tjáningu.

Ég held örfá opin námskeið á ári - eitt slíkt er á vegum Þekkingariðlunar í lok mars - þið getið kíkt á upplýsingar á þessari slóð:

http://thekkingarmidlun.is/template23244.asp?pageid=4097&newsid=1340

 


Pulsugerðarmaðurinn!

Ég verð að játa að stundum finnst mér ég - og fleiri í mínu fagi - vera nauðalík pulsugerðarmanninum í Kardimommubænum. Hann var svo hégómlegur að þegar hann frétti að ræningjarnir þrír hefðu hrópað: "Húrra fyrir pulsugerðarmanninum" Húrra fyrir pulsugerðarmanninum!" Þá steinhætti hann við að vera argur í þeirra garð og sagði ósköp bljúgur: "Nú sögðu þeir það greyin?"

Ég verð að játa að stundum er ég full fordóma og gremju gagnvart fólki en heyri svo haft eftir viðkomandi einhver falleg eða hlýleg orð í minn garð - eða garð þeirra sem mér þykir vænt um - og þá verð ég öll bljúg og afstaða mín gjörbreytist til "ræningjanna" í lífi mínu!

Eins gott að hafa húmor fyrir sér og játa heiðarlega eigin bresti og veikleika. Ef til vill heldur maður þá áfram að þroskast og verða betri manneskja?


Gleðilegar "Fúlar á móti"

Ég var að lesa Morgunblaðið og DV og er ákaflega hrærð yfir því hvað gagnrýnendurnir skrifuðu fallega um mig. Þeir átta sig sennilega ekki á því hvað við leikarar erum miklar tilfinningaverur. Við grátum ef gagnrýnendur skamma okkur og erum í gleðikasti ef þeir hæla okkur.

Ég vona að almenningur láti þetta uppistand "Fúlar á móti" ekki fram hjá sér fara. Það er svo mikið hlegið að leikkonurnar þurfa gjarnan að bíða heillengi eftir að geta haldið áfram. Það er alveg sérstök nautn að geta kitlað hláturtaugar Íslendinga - sérstaklega á þessum síðustu og verstu tímum.

Hlustið á þetta viðtal: http://dagskra.ruv.is/akureyri/4459731/2009/02/25/13/

Ég hlakka til að sjá ykkur öll í leikhúsinu á Akureyri!


"FÚLAR Á MÓTI!" MIÐASALA ER HAFIN!!!

ÞÁ ER KOMIÐ AÐ ÞVÍ:

Nú getið þið tryggt ykkur miða á uppistandið sem allir hafa beðið eftir!!

Edda Björgvins, Helga Braga og Björk Jakobs bíða spenntar eftir að sjá ykkur í leikhúsinu!

Leikfélagi Akureyrar býður uppá "Fúlar á móti".

Tryggið ykkur miða strax í síma 4600200 eða á leikfelag.is og midi.is Ómótstæðileg tilboð!

KEA hótelið er með sérstakt tombóluverð á gistirými fyrir þá sem kaupa leikhúsmiða hjá þeim.

http://www.keahotels.is/template26.asp?pageid=414


Gleðilegt ár og halló Akureyri!

Ég var búin að steingleyma að ég á litla bloggsíðu hér á mbl.is

Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs og vona að þið hafið haft það gott um hátíðarnar.

 Ég er flutt til Akureyrar í bili þ.e.a.s. ég verð hér meirihluta vetrar - fyrst að æfa og svo að sýna leikritið "Grumpy old women" eða "Fúlar á móti" eins og það heitir í íslenskri þýðingu.

Við Helga Braga, Björk Jakobs og ég ætlum að gera allt vitlaust hjá Leikfélagi Akureyrar og fá ALLA Akureyringa .. og reyndar alla aðra Íslendinga - í leikhúsið!

Ég er alveg kolfallin fyrir Akureyringum. Ég fann það strax þegar ég kom og sýndi einleikinn "Alveg Brilljant Skilnaður" sl. sumar að viðmót Akureyringa var einstakt - allir hlýlegir og vingjarnlegir ... svo er þetta svo fallegt fólk! Ég sver það mér verður starsýnt á bæjarbúa - ekki bara unga fólkið heldur er mín kynslóð líka svo flott  (ekki það að við séum eitthvað gömul!).

Við stelpurnar bjóðum alla Íslendinga velkomna hingað til Akureyrar frá og með miðjum febrúar að berja augum þetta drepfyndna verk um ákaflega dásamlegar - en svolítið pirraðar - miðaldra fúlar á móti gellur í stuði!

 Það verða ómótstæðileg tilboð á flugi/gistingu/leiksýningu og Akureyringar breiða út faðminn!

 


Jólagleði

Hvernig getum við látið okkur líða vel á aðventunni - þrátt fyrir eymdarástand það sem valdamenn þessa lands hafa skapað?

Tillaga 1:

Byrjum hvern einasta dag á því að þakka fyrir allt sem við eigum.

Tillaga 2:

Gerum eitthvað góðverk á hverjum degi - helst án þess að nokkur viti af því.

Tillaga 3:

Syngjum hátt og af innlifun a.m.k. tvisvar á dag.

Tillaga 4:

Hittum vini okkar og ættingja eins oft og við mögulega getum.

Tillaga 5:

Förum á alla markaði sem í boði eru á aðventunni.

Tillaga 6:

Förum á alla tónleika sem í boði eru á aðventunni.

Tillaga 7:

Skellum okkur á jólamarkað á Sólheimum - það er ómetanlega andleg næring að vera innan um gleðigjafana þar!


Velkomin á þennan fyrirlestur:

Erum við andleg og líkamleg eiturefna-úrgangs-ruslaskrímsli...?!

Fimmtudagur 27. nóvember kl. 17:30-19:00

Fyrirlestur - Eddu Björgvins hjá Maður lifand Borgartúni 24

„Megrun er úr sögunni, hreinn líkami er laus við aukakíló!“

Hvað hefur mataræði með jákvætt hugarfar að gera?

Hvernig getur manneskja ( með lítinn sjálfsaga!) breytt mataræði sínu úr ruslmat í vítamínríkt fæði? Hvernig getum við breytt hugarástandi okkar?

Hvernig getur lélegur kokkur búið til gómsæta heilsurétti?

Hvaða eiturefni erum við að innbyrða daglega - andlega og líkamlega?

Hver er munurinn á að vera gagnrýnin manneskja eða vera neikvæð umhverfismengun?

Þetta og margt fleira ber á góma í fyrirlestri Eddu og nokkrar öflugar æfingar fylgja fyrir þá sem vilja lifa heilbrigðara lífi – en nenna því ekki!

Fyrirlesturinn er fyrst og fremst spaugileg lýsing á lífsreynslu Eddu og baráttu hennar við að lagfæra líkama og sál og tilraunir til að gerast “jákvæð hollustu-æta”.

Edda rekur söguna frá því hún byrjaði, kornung að búa til hollusturétti sem urðu að makróbíótísku bauna-óæti.

Jákvæðni er lífsafstaða - manneskjan getur breytt veruleika sínum og upplifað meiri gleði í lífinu en nokkurn getur órað fyrir.

Að lokum fylgja í kaupbæti nokkrar hryllingssögur frá dr. Gillian, Kevin Trudau og Huldu Clark um það hvernig matvæla- og lyfjaframleiðendur eru hreinlega að reyna að koma neytendum fyrir kattarnef!

Skráning Netfang: madurlifandi@madurlifandi.is Simi: 585 8703 Verð kr. 1.500 Til baka Prentvæn útgáfa27. nóvember 2008 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband