Íslendingar einstakir

Það er ekki á okkur logið þegar kemur að samstöðu og samhjálp. Ég á orðið nokkuð margar sögur í pokahorninu er varða einstaka hjálpsemi Íslendinga. Síðast í dag var ég stödd í lest frá Kaupmannahöfn til Árósa (þar sem ég ætla að skemmta Íslendingum á þorrablóti) og var að panta samloku og vatn, þar sem ég hafði sofið af mér morgunverðinn í flugvélinni og ekki haft tíma til að kaupa nesti fyrir 3ja tíma lestarferð. Ég borgaði með korti, þar sem ég hafði heldur ekki haft tíma til að taka út danskar krónur í hraðbanka, en posinn las ekki segulröndina - ekki heldur á hinum þremur kortunum sem ég reyndi! Ég neyddist til að skila nestinu - með gaulandi garnir - þá reis upp kona úr næsta sæti og mælti á íslensku: "Ég skal borga þetta - ekkert mál". Mér varð svo mikið um að ég starði bara á hana dágóða stund og reyndi svo að malda í móinn en hún var búin að borga reikninginn áður en við var litið svo ég endaði með því að þiggja góðgerðirnar af konunni. Ég bað hana endilega að gefa mér upp reikningsnúmer svo ég gæti lagt inn á hana en hún hristi bara höfuðið og sagði: "Verði þér að góðu". Ótrúleg hjálpsemi. Ég fékk allavega nafn og símanúmer svo ég gæti hugsanlega launað henni greiðann einhverntímann. Takk Linda - þú ert góð kona!

Þetta er ekki í eina skiptið sem einhver stígur fram býður mér hjálp sína. Í fyrra var ég á bensínstöð hjá Smáralind og ætlaði að leigja kerru. Þegar kemur að því að undirrita samning þurfti að gefa upp kreditkortanúmer. Ég hafði gleymt kortunum heima og reyndi að hringja í alla fjölskyldumeðlimi eftir hjálp, en náði ekki í neinn. Þá segir ein afgreiðslukonan: "Ég skal bara setja mitt kortanúmer, svo þú getir tekið kerruna núna - ekkert mál, ég veit að þú ert strangheiðarleg manneskja". Ég sver það ég fékk tár í augun - eru engin takmörk fyrir því hvað Íslendingar eru tilbúnir að gera fyrir náungann?

Þriðja atvikið sem ég man eftir átti sér stað þegar ég var barnung í Leiklistarskólanum og við kærustuparið ætluðum að fara í bíó. Það var búið að hafa mikið fyrir því að redda barnapíu og þegar við drifum okkur upp í gamla Fíat skrjóðinn, prumpaði hann bara á okkur og neitaði að fara í gang. Við ákváðum að splæsa á okkur leigubíl og taka svo bara strætó heim - klukkan var orðin svo margt að við vorum að missa af myndinni. Þegar leigubíllinn var kominn að Laugarásbíói og ég ætlaði að fara að borga kom í ljós að veskið var heima!!!! Það myndaðist rosalega erfið stemmning hjá kærustuparinu aftur í leigubifreiðinni og ég tautaði að við þyrftum bara að fara heim aftur. Þá sneri leigubílsstjórinn sér við og sagði: "Þið þurfið ekkert að borga bílinn núna". Ég tautaði einhver þakkarorð en bætti við að við hefðum ekki fyrir bíómiðunum heldur. Leikubílsstjórinn náði í veskið sitt orðalaust og dró upp seðla og sagði:" Það er allt í lagi - ég lána ykkur bara fyrir bíóinu líka" Við göptum. Tárvotum augum þökkuðum við þessum ótrúlega elskulega manni fyrir að bjarga tilvonandi hjónabandi okkar - gáfum honum nöfnin okkar, heimilisfang og símanúmer og rusluðumst út úr bílnum og í bíó.

Enn og aftur - svona eru Íslendingar. Redda öllu. Leggja lykkju á leið sína til að hjálpa náunganum og sýna ótrúlegt traust. Vissuð þið að orðið "redda" er ekki til í öðrum tungumálum?

Ég er þakklát fyrir mitt fólk xxxxxxxxxxx

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarndís Helena Mitchell

Já, íslendingar eru sannarlega hjálpsamir margir hverjir. Ég hef líka notið góðs af því. Falleg færsla hjá þér að minnast á þetta. Vonandi var gaman á þorrablótinu í Árósum.

Bjarndís Helena Mitchell, 8.2.2008 kl. 21:37

2 Smámynd: Hdora

Yndislegt...fólk á það til að vera svo fallegt !!!

Hdora, 8.2.2008 kl. 22:56

3 Smámynd: Helga skjol

Frábært fólk.

Helga skjol, 9.2.2008 kl. 11:21

4 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Takk fyrir að benda á svona jákvæðar hliðar mannlífsins. Víst eru þær fyrir hendi, eins og þessi dæmi sanna. Íslendingar eru bestir ... Það finnst mér líka alltaf, einkum og sérí lagi þegar ég er í útlöndum. Ég tala nú ekki um Danmörku, með fullri virðingu fyrir fyrrum herraþjóðinni. Þá kristallíserast þessi vitneskja svo fyrir manni. Bjarsýnis-og jákvæðnikveðjur til þín, kæra kvinna.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 9.2.2008 kl. 12:35

5 Smámynd: Tiger

Sá sem gefur svona mikið af sér daglega, eins og þú, á ekkert annað en það allra besta skilið. Það sem þú gefur okkur af þér og þínu lífi er ómetanlegt - svo mér finnst ekkert skrítið við það að samferðafólk þitt sé tilbúið að rétta þér hjálparhönd ef svo liggur við.

Það þarf mikla og góða manneskju, yndislega sál og mikinn mannvin - til að draga fram það góða í okkur hinum - það þarf þig!

Bara að það væru fleiri Eddur í flóru Íslands, margar eru þær jú en maður getur alltaf á sig Eddu bætt. Það eitt að sjá ásjónu þína í einhverjum fjölmiðli fær mann til að brosa og manni líður vel - takk fyrir mig Edda!

Tiger, 9.2.2008 kl. 15:22

6 Smámynd: Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir

Ég er djúpt snortin yfir þessari gjöf!!!! Sit hér með tárin í augunum og sannfærist enn frekar um að hjörtu Íslendinga eru án efa miklu stærri en önnur hjörtu í heiminum!! Innilegustu þakkir xxxxxxxxxxxxxxxxxxx

Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir, 9.2.2008 kl. 15:27

7 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

ég tek af hjarta undir með tigercopper, sannarlega kæra Edda

Guðrún Jóhannesdóttir, 9.2.2008 kl. 20:23

8 Smámynd: Sesselja  Fjóla Þorsteinsdóttir

Já við getum verið góð.   Kíki oft á bloggið þitt, flottur penni Edda.

Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir, 10.2.2008 kl. 15:28

9 Smámynd: Svala Erlendsdóttir

Jú Edda maður getur alltaf á sig Eddum bætt og sem betur fer eru margar "Eddur" til á landinu okkar 

Svala Erlendsdóttir, 10.2.2008 kl. 18:20

10 Smámynd: Garún

Hæ elsku sæta móðir! Bara að láta þig vita að þú gleymdir afmælinu mínu! hahahaha en ég er sammála. T.d veit ég um eina manneskju sem alltaf er tilbúin að koma og hjálpa eða bara að hlusta þegar maður vantar það! Hún heitir Edda og er Björgvinsdóttir og ég er stolt af því að eiga hana sem vin og launmóður. p.sGetur þú hringt, síminn er lokaður og ég er að þrjóskast við að borga hann!

Garún, 11.2.2008 kl. 11:05

11 Smámynd: Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir

Garún krúttið mitt - þú gleymdir að bjóða mér í afmælið þitt!!! Djóóók - hér kemur afmælissöngurinn: "Hún á afmæli í dag - hún á afmæli í dag - hún á afmæli hún Garún...................... Hún er gömul í dag!!" Húrra fyrir Garúnu - til hamingju með afmælið þú fyndni ljósgeisli!

Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir, 11.2.2008 kl. 21:50

12 Smámynd: Friðrika Kristín

Ég hefði líka gefið þér að borða

Kveðja

Friðrika

Friðrika Kristín, 13.2.2008 kl. 22:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband