Áramótaskaup ... og sjálfhverfir áhorfendur

Ég gat ekki stillt mig um að athuga hverjir hefðu skeiðað fram á ritvöllinn núna til að láta í ljós álit sitt á Áramótaskaupinu 2007. Umfjöllun um þennan dagskrárlið lýsir að mínu mati einna best þjóðarsál Íslendinga. Öll þjóðin horfir á þennan gamanþátt ársins og hvert einasta mannsbarn þarf að tjá sig um það hvort fyrirbærið hafið vakið hlátur eða ekki ... og ekki bara að tjá sig við vini og kunningja heldur þarf ótrúlega stór hópur að viðra smekk sinn á opinberum vettvangi:  ÉG ER STÓRIDÓMUR .. má lesa út úr öllum þeim pistlum og bloggfærslum sem höfundum finnst afar áríðandi að komi fyrir almannasjónir.

Ég spyr: Hverjum kemur við hvað MÉR eða ÞÉR finnst um einn klukkutíma þátt sem sýndur er á gamlárskvöld? 

Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart hvað pirringurinn og illgirnin er mikil í skrifum þeirra Íslendinga sem ekki hafa hlegið nægju sína að hefðbundnum gamanþætti sem sýndur er einu sinni á ári. Svívirðingum ónotahylkjanna rignir yfir aðstandendur þessa gamanefnis eins og þeir hafi framið stórglæp og þeir sem bölsótast mest eru sannfærðir um að þeirra smekkur sé hinn eini sanni og að allir aðrir séu aumingjar og fífl!

Við skulum átta okkur á því að það er ógjörningur að gera öllum til hæfis með einum fimmtíuogfimm mínútna spaugþætti á ári. Það er staðreynd að stór hluti þjóðarinnar er himinlifandi yfir áramótaskaupi hverju sinni  - og það er líka staðreynd að stór hluti sömu þjóðar er skítpirraður yfir sama efni ... það er bara spurning um hvor hópurinn er háværari á opinberum vettvangi.

Það má líka benda á að yfirleitt eru afar skýr kynslóðaskipti í smekk á húmor.

Aðstandendur Áramótaskaupsins 2007 eiga alla mína samúð ... ég samgleðst  þeim líka innilega - allt eftir því hvorum hópnum ég tilheyri eftir að ég er búin að berja augum bitbeinið í ár.

Munið svo góðir áhorfendur að allir listamenn sem að framleiðslu gamanefnis koma eru alltaf að gera sitt allra besta og leggja mikinn metnað í að vanda vinnubrögðin - og það er svo sannarlega einlægur vilji þeirra sem ábyrgðina bera að reyna að gleðja sem flesta.

Ég veit ekki hvort að þjóðarsálinni verður nokkuð breytt en við getum reynt að hætta að einblína ofan í eigin nafla og hugsanlega getum við einhverntímann fært umræðuna á aðeins hærra plan – til dæmis með því að sýna virðingu  þeim listamönnum sem  leggja höfuðin á gapastokk þjóðarinnar ár hvert og taka að sér það ómögulega verkefni að reyna að fá ALLA þjóðina til að hlæja saman í lok árs.

Ég færi  ykkur - sem nú eruð í kjötkötlum bloggara og fjölmiðlaspekinga - mínar bestu þakkir fyrir að leggja heiður ykkar að veði þetta árið og axla þá ábyrgð að öll þjóðin grenji úr hlátri á gamlárskvöld árið 2007!

Svo til að draga umræðuna niðrá lægra plan þá fullyrði ég að ALLIR elskuðu uppáhalds áramótaskaupin MÍN !!!  ALLIR  eru sammála um að skaupin 1981 – 1984  og 2005 séu langfyndnustu og bestu skaup allra tíma!!! Ef einhver vogar sér að vera ósammála MÉR er sá sinn sami algjör..../&%$%&//(/&%#    og    (/&&%$$%// og ætti að steinhalda kj../(%%$“#& OG HOPPA UPP Í  %$&/&&%#“/

GUÐ GEFI YKKUR ÖLLUM GLEÐILEGT NÝTT ÁR!!!!!

PS. Til að forðast allan misskilning þá vil ég taka það skýrt fram að ég hef ekki séð umrætt Áramótaskaup. Ég hef sjálf tengst fimmtán Áramótaskaupum frá því árið 1978 (leikið í þeim og/eða skrifað hluta af þeim) og fundist þau misgóð eins og gengur (allir sem að þeim komu unnu sitt starf af miklum heilindum og reyndu að gera þjóðinni til hæfis) - en ÖLL kölluðu þau á öflug opinber viðbrögð, ýmist aðdáenda eða hatursmanna! Dásamleg þjóðarsál!

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

"ÉG ER STÓRIDÓMUR .. má lesa út úr öllum þeim pistlum og bloggfærslum sem höfundum finnst afar áríðandi að komi fyrir almannasjónir."

Þínar skoðanir hefur þú viðrað Edda sbr. ofanritað og mér finnst þú hafa rétt á því. Mér finnst þú líka hafa rétt á að segja mig telja mig "stóra dóm". Mín skoðun er bara öndverð.

Mér fannst skaupið ekki standast væntingar og finnst fénu illa varið sem fór í það. Það er kannski enginn smá dómur að þínu mati, en ég er ekkert að sligast undir þeirri skoðun minni....

Gæfu- og gleðiríkt ár Edda.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 2.1.2008 kl. 11:13

2 Smámynd: Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir

Hjartans þakkir fyrir að bíta á agnið Heimir xxxxxxxxxxxxxxx

Knús og kossar frá manneskju sem hefur ekki séð Áramótaskaupið 2007 og er því alls ekki að bera á borð neina skoðun - eða eigin smekk á því sem þar var í boði.

Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir, 2.1.2008 kl. 11:17

3 Smámynd: Júlíus Valsson

Þetta er einmitt það sem gerir Skaupið svo skemmtilegt. ALLIR horfa á það og ALLIR hafa skoðun á því. Svona á þetta líka að vera.

Júlíus Valsson, 2.1.2008 kl. 11:38

4 identicon

Þetta var fínasta skaup, ég hló á köflum og stundum botnaði ég ekki neitt í neinu og brosti ekki einu sinni en svona er þetta bara, sumt finnst manni fyndið og annað ekki og ég segi það með þér, mér finnst svolítið skondið hvað fólk getur tapað sér í þessu, þetta er bara einn lítill skemmtiþáttur.

Ragga (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 12:55

5 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

Þessi pistill var að mínu mati miklu betri en það sem ég sá af skaupinu, sérstaklega endingin          " Svo til að draga umræðuna niðrá lægra plan þá fullyrði ég að ALLIR elskuðu uppáhalds áramótaskaupin MÍN !!!  ALLIR eru sammála um að skaupin 1981 – 1984 og 2005 séu langfyndnustu og bestu skaup allra tíma!!! Ef einhver vogar sér að vera ósammála MÉR er sá sinn sami algjör..../&%$%&//(/&%# og (/&&%$$%// og ætti að steinhalda kj../(%%$“#& OG HOPPA UPP Í %$&/&&%#“/" og það viðurkenni ég líka að mér fannst skaupin þín bara fín (þori ekki öðru hehehehehe) en nota bene   það viðurkennist líka að ég er EKKI dugleg við að horfa á sjónvarpið, finnst það frekar leiðinlegt athæfi.

Á R A M Ó T A K N Ú S

Guðrún Jóhannesdóttir, 2.1.2008 kl. 13:10

6 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

 p.s. það er sannarlega ekki öfundsvert að gera áramótaskaup

Guðrún Jóhannesdóttir, 2.1.2008 kl. 13:15

7 Smámynd: Laufey B Waage

Guð gefi þér líka GLEÐIlegt ár mín kæra. Takk fyrir allar þínar gleðigjafir fyrr og síðar.

Laufey B Waage, 2.1.2008 kl. 13:29

8 Smámynd: Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir

Takk fyrir að fylgjast með mér og veita mér aðhald. Ég viðurkenni vanmátt minn... ég þori ekki að horfa á umræddan sjónvarpsþátt af ótta við að ég muni ekki hlæja neitt og breytast umsvifalaust í illskeytt ónotahylki sem muni skrifa langar færslur á allar bloggsíður um hvað það sé nú miklu viturlegra að láta gamalreyndar gamanleikkonur (ath. - ég sagði KONUR) sjá um títtnefndan gamanþátt ALLTAF ALLTAF ALLTAF!!

 Að lokum minni ég okkur á að vera yndislega góð hvert við annað á nýju ári.

Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir, 2.1.2008 kl. 17:50

9 Smámynd: Júlíus  Garðar Júlíusson

Gleðilegt ár mín væna...vildi gjarnan fá ð sitja með þér og horfá skaupið...jafnt þetta sem öll önnur skaup þá væru þau öll frábær. Það er ekki bara skaupið sjálft sem skiptir máli heldur hugarfar þess sem á horfi en síðast en ekki síst er það nú félagsskapurinn og ef að allir landsmenn gætu horft á áramótaskaupin með þér og hlegið og grátið þá væru þau öll góð.

Kveðja Júlli

Júlíus Garðar Júlíusson, 2.1.2008 kl. 20:42

10 Smámynd: Bjarndís Helena Mitchell

Ég sá skaupið og ég hló! Ég hló mig máttlausa á köflum og hláturinn kurraði í mér undir yfirborðinu á köflum. Stundum glotti ég bara og einbeitti mér, stundum var ég ekki viss um hvað djókið snerist, en yfirhöfuð fannst mér skaupið gott, skemmtilegt og umfram allt fyndið. Ég tilheyri allavega þeim hluta þjóðarinnar sem er sátt við skaupið í ár. Gleðilegt nýtt ár og endilega farðu nú að kíkja á þetta skaup......Takk fyrir mig.

Bjarndís Helena Mitchell, 3.1.2008 kl. 02:59

11 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Og ég sem hélt að þetta hefði verið fréttaþáttur

Ekki hafði ég hugmynd um að það væri búið að reka hana Dorrit úr forsetahjónunum

Margrét Birna Auðunsdóttir, 7.1.2008 kl. 18:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband