31.12.2007 | 18:09
Áramót
Ég óska ykkur öllum gleðilegra áramóta. Hér er veðrið dásamlegt - svolítið svalt í gærdag - fyrsti dagurinn sem ekki var hægt að vera á stuttermabol - góðar flíspeysur komu sér vel þegar stórfjölskyldan ók í Universal Studios (með navigator... galdratæki!).
Þrátt fyrir yndislega dvöl hérna í San Diego verð ég að segja að ég hlakka svolítið til að koma heim í janúar og byrja að hendast á milli staða til að halda fyrirlestra og námskeið (leiklistarstörfin bíða fram á vor) - kem svo aftur hingað út í mars til að leggja lokahönd á ritgerðina mína.
Það er alveg sama hvar maður er í heiminum - tíminn líður alveg jafn hratt allsstaðar. Ég trúi varla að ég sé búin að vera hér Kaliforníu í fjóra mánuði. San Diego er ótrúlega falleg borg og íbúar virðast vera glaðir og í góðu jafnvægi (það finnur maður best í umferðinni - ákaflega góð umferðamenning hér, sama hvort maður er á "freeway" eða í úthverfum) allsstaðar mætir manni hlýlegt og einstaklega kurteislegt viðmót.
Gangið hægt um gleðinnar dyr um áramótin - við fjölskyldan verðum í Íslendinga-áramótagleði og erum að undirbúa aðalréttinn: Önd í pönnukökum - með Hoisin sósu (uppáhalds hátíðamaturinn okkar!)
Áskorun: EKKI RÍFAST UM ÁRAMÓTASKAUPIÐ FRAM Í FEBRÚAR!!!
Njótið augnabliksins og verið glöð.
Að lokum minni ég á söfnunarreikninginn frá því í síðasta bloggi. Vinir mínir Sigga og Jónas þurfa á hjálp okkar að halda núna. Guð geymi ykkur öll á nýju ári.
Athugasemdir
Gleðilegt ár, mín kæra Edda. Þú varst falleg í Skaupinu, eins og alltaf.
Það er gott að þú nýtur lífsins í San Diego og áður en þú veist af verðurðu komin í storminn á Íslandinu góða.
Megi nýja árið færa þér hamingju og frið.
PS. Hvaða yngingarmeðal notarðu?
Túrilla, 1.1.2008 kl. 11:31
Hjartans þakkir fyrir falleg orð. Skemmtilegt að heyra að einhver gat greint undirritaða í augnabliks innliti í þátt ársins! Vonandi skemmtu einhverjir sér yfir gríninu - við hér misstum af því eins og öðru sem gerist á Íslandi þessar vikurnar. Hlakka til að hitta ykkur öll aftur.
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir, 1.1.2008 kl. 19:19
Það fer eiginlega ekki á milli mála, ef notandanafn mitt er skoðað, að ég er einlægur aðdáandi til margra ára. Að mínu mati ertu besta og fyndnasta leikkona sem Íslendingar hafa eignast. Þú hefur glatt mitt litla hjarta óendanlega mikið sl. 30 ár og kann ég þér mínar bestu þakkir fyrir.
Já, og skaupið var æði
Túrilla, 2.1.2008 kl. 12:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.