14.12.2007 | 18:40
Phoenix Arizona og tilfinningar
Ég skrapp á námskeið í Phoenix Arizona og hef þar af leiðandi ekki ritað mikið á þessa bloggsíðu mína. Námskeiðið hét: Date with destiny og leiðbeinandinn heitir Anthony Robbins. Það er ótrúlegt að horfa á svona flinkan fyrirlesara. Burtséð frá öllu því fróðlega efni sem hann var að vinna með á þessu námskeiði, var einstakt að fylgjast með þeirri tækni sem hann beitir við að flytja fyrirlestra sína. Hann talar við 2.500 manna hóp (stundum 10.000 manns) og hver einasti áhorfandi upplifir þá tilfinningu að fyrirlesarinn sé að tala eingöngu við hann og engan annann. Það er næstum því jafn erfitt að skilgreina hæfileika framúrskarandi fyrirlesara og að skilgreina yfirburða leiklistarhæfileika. Tæknilega eru fjölmargir að gera nákvæmlega hárrétta hluti en þegar fyrirlesari nær að hrífa áhorfendur jafn áþreifanlega og þessi maður gerir - 16 klukkustundir á dag í 6 daga - þá er einhver óútskýranlegur galdur á ferðinni. Nákvæmlega eins og þegar maður horfir á góðan leikara á leiksviði. Gjarnan er meirihluti leikara sem maður horfir á að gera allt "rétt" og ekki er hægt að finna að leik þeirra - en oftar en ekki er aðeins einn á leiksviðinu sem gefur manni eitthvað sérstakt - framkvæmir einhvern galdur þannig að áhorfendur verða upprifnir og sveiflast stjórnlaust á milli tilfinninga eru sem sagt algjörlega á valdi leikarans. Þetta fyrirbæri hefur ekkert með hæfileika eða tækni að gera - þetta er svokallaður leikhúsgaldur. Hann er óumdeilanlegur og óútskýranlegur - upplifun sem ekki er hægt að setja á prent. Tilfinningaleg reynsla sem ógjörningur er að lýsa með orðum. Góður fyrirlesari hefur þennan leikhúsgaldur.Eina sem ég hef fundið sameiginlegt með öllum þeim leikurum - og fyrirlesurum - sem hafa fyrirhafnarlaus hrifið mig úr raunveruleikanum og stýrt mér þangað sem þeir ætla sér - er að þeir taka mikla áhættu þegar kemur að því að gefa af eigin tilfinningum - blotta sig - myndu sumir segja. Það er eins og leikarinn/fyrirlesarinn sé að gefa mér sem áhorfanda, leynihólf í hjarta sínu sem utanaðkomandi aðilar hafi að öllu jöfnu engan aðgang að. Ég sit innan um mörghundruð (eða þúsundir) áhorfenda en skynja einhvern fjársjóð sem mér einni er ætlaður.Nú er ég komin á hála braut farin að reyna að útskýra það sem tæplega er hægt að útskýra í orðum og þar að auki farin að greina performans út frá tilfinningum - ekki á fræðilegan hátt.Ég er reyndar komin á þá skoðun að heiminn skuli meta með hjartanu og að öll mannleg samskipti skuli fyrst og fremst skoða og skilgreina út frá tilfinningalífi einstaklinga. Ég er sannfærð um að aðeins með því móti sköpum við betri heim.
Athugasemdir
Hæ Edda, var farin að sakna þín
Frábært að námskeiðið var gott, alltaf gaman þegar einhver nær að hrífa mann svona með sér.
Kær kveðja úr rokinu og rigningunni á Akranesi
Guðrún Jóhannesdóttir, 14.12.2007 kl. 18:51
Já, sumir hafa þennan sjarma, sem aðrir bara ná ekki. Ég held að ég skilji þig og í vanmætti mínum vildi ég óska þess stundum að þennan "sjarma" væri hægt að læra fræðilega. En þrátt fyrir allan góðan ásetning, vilja og vinnusemi, þá er það bara ekki "the real thing".
Bjarndís Helena Mitchell, 14.12.2007 kl. 19:17
Vá frábær pistill frá þér, ég er svo sammála. Það er hægt að kunna allt eins og í verksmiðjuframleiðslu, en að geta gert þetta með hjartanu er kúnst.
Frábært
kv sj
Sigríður Jónsdóttir, 15.12.2007 kl. 12:58
Gleðileg jól, gullið mitt.´
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 17.12.2007 kl. 16:46
Segðu mér Edda, er Tim í hvítri kaðalprjónspeysu?
Bíð spennt eftir að bjóða þér í eðal-gestasvítuna okkar í höfnum, það sem hafgolan gælir hraustlega við þakgluggann og húsið brakar mann í svefn. (svona er það allaveganna búið að vera undafarna viku)
Hafðu það nú ofsa gott um jólin, sæta.
Guðbjörg í Höfnum (IP-tala skráð) 18.12.2007 kl. 09:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.