10 daga hreinsun - allt lífrænt!

Ef þið viljið virkilega láta á það reyna hvort sjúkdómar ykkar (liðverkir, ofnæmi, húðvandamál, meltingarkvillar, höfuðverkir, slappleiki etc.) stafa eingöngu af eiturefnum sem  leyfð(!) eru í matvælum - þá skuluð þið prófa galdrakúrinn sem hefur "læknað" ótrúlegustu sjúkdóma. Þetta er ákaflega einfaldur kúr: Ávextir, grænmeti, hnetur og fræ - og mikið af vatni.

EINGÖNGU lífrænir ávextir og grænmeti!!

Ávextina borðar maður fram að hádegi og grænmetið eftir hádegi. Það er mjög líklegt að þið missið einhver kíló þessa daga og þeir sem ekki mega við því að léttast verða að vera duglegir að borða sætar kartöflur, banana, hnetur, döðlur, fíkjur o.fl.

Svona fer ég að: Á morgnana fæ ég mér melónubita (eftir að hafa svolgrað í mig a.m.k. stóru glasi af sítrónuvatni) til að ýta hreinsuninni reglulega vel af stað, svo útbý ég "Smoothie" úr öllum þeim ávöxtum sem ég finn í ísskápnum, brytja þá út í hrísmjólk eða möndlumjólk (eða eitthvað annað fljótandi úr heilsubúðunum - EKKI nota mjólkurvörur!) að auki bæti ég við lífrænum ávaxtasafa og fínmöluð hörfræ gera drykkinn að fullkomnum morgungaldri. Fram eftir morgni narta ég í epli, perur eða ber ef ég þarf á einhverri fyllingu að halda

Í hádeginu útbý ég salat og munið: BORÐIÐ REGNBOGANN! Það þýðir - hafið grænmetið í öllum litum - þá getið þið verið viss um að þið eruð að fá öll vítamín og steinefni sem þið þurfið að fá. Ef þið bætið grjónum og baunum við grænmetið eruð þið í mjög góðum málum. Ekki gleyma að borða söl.

Vatn er lífsnauðsynlegt - og fyrir konu eins og mig ( í meðal þyngd) er mikilvægt að drekka 2 lítra - 2 1/2 á dag. Meira magn fyrir þá sem eru þyngri. Ég er alltaf með könnu með sítrónuvatni á náttborðinu mínu því eitt glas af þeim töfrasafa á morgnana er kraftaverka hreinsilyf! Drekkið svo vatnið í smáskömmtum yfir daginn - ekki svolgra lítrana tvo í einu!

Þeir sem hafa prófað þennan kúr vilja yfirleitt ekki hætta því þeir finna svo mikinn mun á orku og vellíðan - ég tek mjög oft einn til tvo mánuði í þetta hreinsunarfæði því ég nenni ekki að burðast með stirðleika og liðverki - barnung konan!

Ekki láta ykkur bregða þó að þið fáið fráhvarfseinkenni fyrstu dagana - það er mjög algengt að fólk fái höfuðverk og allskonar þreytueinkenni á meðan mestu eiturefnin eru að fara út líkamanum. Eftir smá tíma eruð þið komin í ólýsanlega gott form.

Ef þið viljið fullkomna heilsukúrinn þá skuluð þið fá ykkur "Udo´s oil" tvisvar á dag og hveitigras-safa þrisvar í viku!

Í einu "skoti" af hveitigras-vökva er u.þ.b. 97% af öllum þeim steinefnum sem líkaminn þarf á að halda. Í heilsubúðunum fáið þið alla þá aðstoð sem þið þurfið við að velja réttu vörurnar.

Gangi ykkur vel og verði ykkur að góðu. Hikið ekki við að hafa samband ef þið eruð með einhverjar spurningar.

p.s. Ef ykkur leiðist hroðalega að vera á þessum heilsukúr - fáið fleiri með ykkur. Það er mikill stuðningur í að vera nokkur saman - allavega til að byrja með - á meðan að fráhverfseinkennin eru að ganga yfir.

Heilsufríkin lifi!!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benna

Lýst vel á þessa uppástungu, einföld og þægileg í framkvæmd er alvarlega að hugsa um að prufa hana en eitt má maður nota soya mjólk með ávöxtunum?

Hef nefnilega verið að upplifa mikla liðverki og annað undanfarið sem ég væri fegin að losna við og vinn á stað þar sem ég er mikið í kringum ávexti og svona svo þetta er gullið tækifæri fyrir mig, takk fyrir að deila þessu með okkur.

Benna, 24.11.2007 kl. 19:26

2 Smámynd: Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir

Soya mjólk er fín í hófi - VERÐUR þó að vera lífræn! Það er mikið af drykkjum sem eru góðir í morgunhristinginn á móti Soya mjólkinni, Almond milk, Rice milk, Oatmeal milk, Quinoa milk o.fl. Gangi þér vel

Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir, 24.11.2007 kl. 19:40

3 Smámynd: Benna

Ok ætla að prufa það...er Soya kannski ekkert svo holl eftir allt saman? Hef lítið vit á þessu eins og ég segi en við erum að selja drykk í minni vinnu með Vanillu Soya mjólk og ávöxtum og ég hef einmitt haldið að það sé svo hollt og grennandi....

Benna, 24.11.2007 kl. 20:49

4 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Ég hef verið á svona mataræði og það er yndislegt, bæði það sem maður lætur ofan í sig og svo áhrifin. Hins vegar "dett´" ég alltaf "í það" með því að fara að svolgra kaffi (sem er mitt eina og ástsæla fínkniefni) og slafra í mig rjómakökum og kruðeríi með. Þá er draumurinn búinn. Þar til næst.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 24.11.2007 kl. 23:26

5 identicon

Takk kærlega fyrir þetta Edda Björgvinsdóttir, þetta ætla ég að prófa, ég er nefnilega skíthrædd um að fitna núna, þar sem ég var að hætta að reykja og svo er þetta frábært til úthreinsunar, eins og þú segir - enn betra. Enn og aftur þúsund þakkir, treysti þessu, þar sem þú sjálf lítur alveg rosalega vel út - allavega síðast þegar ég sá þig, sem var nú bara í einhverjum þætti í TV.

Takk

Alva Ævarsdóttir.

alva (IP-tala skráð) 25.11.2007 kl. 16:40

6 Smámynd: Heidi Strand

Þessi ráð eru himnasending þar sem þyngdin eykst um kíló í hvert skipti sem stigið er á vigtina, eða kannski eru það bara tæknileg mistök.

Heidi Strand, 25.11.2007 kl. 21:21

7 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

ÓMG!!

Þegar maður er búinn að éta yfir sig af kjúklingi, löðrandi í kókosolíu og helbökuðu grænmeti, kaffi og piparkökum á eftir, þá er þetta einmitt það sem maður á að lesa :) Ég looooooofa að byrja á morgun ;o)

Ylfa Mist Helgadóttir, 25.11.2007 kl. 21:49

8 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Gleymdi aðalspurningunni, hvað á maður að borða á kvöldin? Því að systir, ef hádegismáltíðin er sú síðasta yfir daginn þá erum við að tala um vandræði fyrir YlfuMist!

Ylfa Mist Helgadóttir, 25.11.2007 kl. 21:51

9 identicon

  MM hvað þetta hljómar girnilegt. Mig langar bara strax að prufa:) Prufaði um daginn wellness weekend grænmetis og ávaxta drykkjarkúrinn það var alveg okey en leið eins og ég væri í ógeðisdrykk keppni í hvert sinn sem ég þurfti að drekka.

Ingunn Valgerður Henriksen (IP-tala skráð) 27.11.2007 kl. 01:24

10 Smámynd: Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir

Kæra Ylfa. Á kvöldin fæ ég líka slík fráhvarfseinkenni að ég þarf að handjárna mig til að ég rjúki ekki út í sjoppu og kaupi sykurpúða með súkkulaðihjúp!!!!

Þá er rakið að eiga uppáhalds ávextina sína, bláber, melónu, jarðaber - eitthvað sem þér finnst gott - eða búa til annan ávaxta smoothie. Það er alveg gulltryggt að ef ég skelli í mig góðum annas-banana-jarðaberja "sjeik" þegar ég er að fara að hendast út í sjoppu - þá er ég orðin fín og þarf ekki súkkulaðieitrið!!

Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir, 27.11.2007 kl. 16:35

11 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Til að yfirvinna sætuþörf á kvöldin, finnst mér fínt að hafa vínber eða döðlur. Með kaffinu (sem ég get náttúrulega ekki verið án, hvort sem það er hreinsun eður eigi)  fæ ég mér frosin vínber. Það er ótrúlega gott!

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 27.11.2007 kl. 23:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband