Ritgerðin...

Þá er ég lent aftur í San Diego - og búið að slökkva í borginni!

Þá hefst vinnan við ritgerðina. Mér finnst það reyndar flokkast undir sumarfrí að vera bara í einu verkefni. Erum við ekki snarklikkuð Íslendingar? Ég náði að halda 14 námskeið og 6 fyrirlestra á 10 virkum dögum - og náði einni veislustjórn að auki, kvöldið áður en ég flaug út.   Allir vinir mínir og ættingjar voru á svipuðum hlaupum - dæmigerð íslensk vinnuþrælkun! Ekki það að ég sé að kvarta, síður en svo, ég er svakalega þakklát fyrir að það skyldi allt ganga upp eins og áætlað var - þ.e. að fylla alla dagana heima af verkefnum - til þess var nú leikurinn gerður - ég hef bara smá áhyggjur af okkur spretthlaupurunum heima á Fróni - þ.e. sálarró okkar.

Það rifjaðist upp fyrir mér um daginn, þegar ég skrapp í heimsókn til yndislegrar ömmu dætra minna, sem liggur á sjúkrahúsi, að ég fékk hálfgert áfall þegar ég fór að rannsaka matinn sem sjúklingum er boðið uppá. Það er eldhús úti í bæ sem sér um sjúkrahúsfæði og ég hefði haldið að þeir matvælafræðingar hefðu að leiðarljósi boðskap Lýðheilsustöðvar - þ.e. 5 skammtar af ferskum ávöxtum og grænmeti daglega til að líkaminn fái þau næringarefni sem hann þarf. Þegar frænka mín lá á sjúkrahúsi sl. vetur var algengt að hádegis- og kvöldverðurinn væri unnin matvara (sem ég hélt að væri hreinlega búið að banna!) og ögn af soðnu grænmeti með einhverjum torkennilegum hveitisósum. Engir ferskir ávextir og ekkert ferskt grænmeti. Ég tek það fram að hún var ekki á neinu sérfæði sem útilokaði ávexti og grænmeti! Í kaffitímanum var  henni gjarnan boðið uppá randalínur, rúllutertur eða eitthvað annað sætabrauð. Ég ráðlegg heilbrigðisyfirvöldum að rannsaka það fæði sem boðið er uppá í opinberum stofnunum og lesa líka allar þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á því hvað lélegt fæði getur orsakað alvarlega sjúkdóma.

Ég tók mig til og hafði uppá þessu eldhúsi sem útbýr matinn fyrir sjúkrastofnanir og bað um að fá upplýsingar um matseðil vikunnar og fékk afar hranalega afgreiðslu - vægast sagt. Ég var spurð að því hvað ég ætlaði eiginlega að gera við þessar upplýsingar og sagt að það þyrfti að fá leyfi yfirmanns til að láta matseðilinn í té - það væri ekki vaninn að láta Pétur og Pál fá þessi gögn!

Ég hugsaði með mér - skammast þau sín fyrir það sem þau eru að bjóða uppá? Sennilega - enda ekkert skrítið - það er erfitt að verja það að fæði fyrir alvarlega veikt fólk á stofnunum samanstandi af unnum kjötvörum og sætabrauði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heidi Strand

Ég er svo aldeilis hissa. Það lítur ekki út fyrir að spítalamaturinn hafi batnað á tæpum 20 árum síðan ég vann barnadeildinni á Landspítalanum. Börnin höfðu oft enga lyst á matnum og oft fóru kvöldmatarskammtarnir ósnertir aftur í eldhúsið. Minnisstæð var græna súpan sem oft var í boði og sem ég sá aldrei neinn snerta. Það endaði með að ég sendi með smá skilaboð um að það væri tilgangslaust að bjóða upp á græna súpu en það dugði ekki til.
Sjúklingar eru oft lystarlausir en fengju þeir fjölbreyttari og girnilegri mat myndi það flýta fyrir bata þeirra og legudögum myndi örugglega fækka.

Heidi Strand, 4.11.2007 kl. 21:55

2 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Sæl Edda mín. Hvernig gengur með ritgerðina? Hvenær útskrifast þú frá Bifröst?

Knús. Ragnheiður

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 6.11.2007 kl. 15:56

3 Smámynd: Svala Erlendsdóttir

Já, þessir matseðlar... Ég held að fáir myndu panta af þeim ef þeir færu út að borða. Mamma mín er á hjúkrunarheimili og Lán i Óláni er að hún er hætt að geta borðað venjulega fæðu og fær heilsudrykk mixaðan með ávöxtu m

Svala Erlendsdóttir, 6.11.2007 kl. 16:03

4 Smámynd: Magnús Paul Korntop

Það á ekki að líðast að eldhús sem sér um mat fyrir  sjúkrahúsin skuli bjóða alvarlega veku fólki upp á djönkfæði.,það verður að stöðva í eitt skipti fyrir öll.

Magnús Paul Korntop, 7.11.2007 kl. 17:12

5 Smámynd: Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir

Hárrétt Magnús!

Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir, 7.11.2007 kl. 19:52

6 Smámynd: Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir

Ragnheiður mín - ég stefni á að verja ritgerðina mína í vor. Kúrsarnir búnir og sjálfsaginn tekinn við! Undarlegt hvað t.d. heimilisstörfin glepja þegar ég á að vera að skrifa!

Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir, 7.11.2007 kl. 19:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband