21.10.2007 | 18:41
Húmor í stjórnun
Ég laumaðist til Íslands í gærmorgun og leið svolítið eins og Palla sem var einn í heiminum þangað til hann vaknaði eftir svakalega erfiða martröð. Enginn vissi af mér nema Garún fósturbarn mitt (sem sótti mig á flugvöllinn) og fjölskylda mín - og þeir fjölskyldumeðlimir sem ekki eru í útlöndum voru úti á landi svo síminn hringdi ekki - dauðaþögn. Enginn var í íbúðinni sem ég fékk að gista í og ég var einhvernvegin of uppburðalítið til að leggjast á tólið og hringja í vini mína. Svolítið sérkennileg lífsreynsla fyrir manneskju sem þarf nánast að ráða einstakling í fullt starf við að svara öllum símtölunum og tölvubréfunum sem berast daglega - afar hollt samt að lenda inni í svona "dead zone" þar sem tíminn stendur í stað þó allir í þjóðfélaginu virðist vera á hraðferð - nema maður sjálfur.
Það liðu nú ekki margir klukkutímar þangað til ég var lögð af stað út úr bænum að elta uppi fjölskyldu mína. Borðaði með yndislegu fjölskyldu minni á Hellu og ætlaði svo að fara að hringja í alla hina þegar ég tók eftir að síminn var dauður - og ekkert hleðslutæki. Maður áttar sig á því á svona stundum hvað líf manns snýst í kring um tvö lítil tæki: tölvu og síma. Hvað værum við að gera í lífinu ef þetta tvennt væri tekið af okkur? (gefið ykkur góðan tíma til að íhuga þetta).
Nú taka við 10 daga hlaup á milli fyrirtækja og stofnana að halda fyrirlestra og námskeið - dvalalífið búið - og prufukeyrsla á fyrirlestrinum "Húmor í stjórnun" framundan. Ef þið viljið koma þá skuluð þið endilega skrá ykkur hjá honum Árna á : stjornandinn.is
Alltaf er nú Ísland besta land í heimi - það eru svo ótrúlega margir hér sem mér þykir innilega vænt um - og það er auðvitað það sem skiptir öllu máli. Landið þar sem ástvinir manns eru - er það ekki?
Ég ætla að hætta áður en ég fer að vatna músum - hlakka til að hitta ykkur næstu daga
Athugasemdir
Hæ og velkomin heim elsku frænka. Var einmitt að senda þér póst en fékk svakalegan móral yfir því að vera ekki búin að hafa samband þegar ég las bloggið þitt hér að ofan. En sko ég reyndi að hringja og hringja um helgina en síminn þinn var alltaf dauður . Hlakka afskaplega mikið til að hitta þig og tala nú ekki um að fá tækifæri til að vinna með þér. Það verður bara gaman. Heyri fljótlega í þér og fæ allt það nýjasta frá AMRÍKU........
kv Anna Lóa frænka
Anna Lóa (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 15:54
Mikið óskaplega er gott að sjá, að þér tókst að forða þér undan skógareldunum.
Laufey B Waage, 23.10.2007 kl. 09:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.