6.10.2007 | 20:06
Meira um skólamál ............. lifi Hjallastefnan!
Ég ætla að leyfa mér að birta kafla úr viðtali sem Anna Kristine hafði við mig um daginn og birtist í heild sinni í einhverju helgarblaðinu núna. Þessi kafli fjallar um skólamál:
--------------------------
Ég er mjög hrifin af skólakerfinu hér (Í USA). Það er dásamlegt að sjá hvernig tekið er á móti barni sem stendur höllum fæti málfarslega séð og fylgjast með þeim öfluga stuðningi sem veittur er. Auðvitað er erfitt að hoppa inn í unglingaskóla og eiga allt í einu að læra mathematics á útlensku en mannlegu samskiptin og hlýjan er í öndvegi hér í öllum skólum og þá er allt annað svo auðvelt. Hér er lögð mikil áhersla á mannrækt. Við erum svo aftarlega á merinni í skólakerfinu á Íslandi þegar kemur að því að leggja rækt við sálina og sýna meðbræðrum okkar kærleika. Þess vegna þarf fullorðið fólk á Íslandi virkilega á því að halda að dvelja endalaust á jákvæðni- og sjálfsstyrkingarnámskeiðum. Það vantar þjálfun í manngæsku í íslenska skólakerfið. Ég verð alltaf jafn hissa á því hvað við erum komin stutt og maður er minntur rækilega á það þegar maður kemur í aðra heimsálfu og kynnist skólakerfinu þar.
Börn verðlaunuð fyrir hjartahlýju
Hér er börnin látin skrifa undir það hvort þau samþykkja að vera jákvæð, góð og hlýleg hvert við annað; ekki stríða, ekki segja ljóta hluti og bera virðingu fyrir samnemendum og kennurunum sem skrifa líka undir samskonar samninga og allir leggjast á eitt að gera skólaumhverfið að eftirsóknarverðu starfsumhverfi fyrir alla. Það fer t.d.heill fundur í það að ræða við börnin hvort þau séu tilbúin til að lifa lífinu á þennan hátt og brýnt fyrir þeim að það sé tekið á hverju einasta máli sem upp kemur og unnið úr því af heiðarleika og réttsýni. Það er líka brýnt fyrir börnunum að ef þau verði fyrir áreiti eigi þau að segja strax frá því og ef þeim finnist undirtektirnar dræmar hjá þeim sem þau tala við eigi þau hiklaust að snúa sér eitthvað annað og hætta ekki fyrr en þau nái eyrum einhvers fullorðins aðila sem virkilega gengur í málið og hjálpar til við að leysa úr vandanum. Þetta er frábært. Svo er umbunað fyrir manngæsku. Litla vinkona mín, Bríet Ólína, sem er tólf ára, er búin að fá mörg verðlaun fyrir það að vera hlýleg og hjálpsöm manneskja. Hún hefur reynslu núna af þremur skólum og allsstaðar er metið við hana hvað hún er góð manneskja og hún verðlaunuð fyrir þá dyggð. Ekki minnist ég þess að neitt af þeim yndislegu, góðu og hjartahlýju börnum sem ég þekki á Íslandi, hafi nokkurn tíma verið verðlaunuð fyrir manngæsku. Þau fá mörg hver verðlaun fyrir stærðfræðikunnáttu og lestrargetu en að það sé metið að þau hafi félagsfærni og sýni mannkærleika það er af og frá. Er það kannski skýringin á því hvað íslensk börn mælast vansæl og full af vanmetakennd ár eftir ár, samkvæmt fjölmörgum alþjóðlegum könnunum sem gerðar eru reglulega á grunnskólabörnum?"
----------------
Þetta var sem sagt kaflinn í viðtalinu sem fjallaði um skólamál. Málið er það með íslenska skólakerfið að það er grunnurinn sem er í ólagi. Honum þurfum við að breyta. Ef við ætlum ekki að sætta okkur við þessa ógnvekjandi þróun ofbeldis og óhamingju ungmenna Íslands, tala nú ekki um vaxandi neyslu áfengis, þá VERÐUM við að fara að leggja áherslu á mannrækt, kærleika og andlega næringu í skólum landsins. Ég vil taka það skýrt fram, áður en allir sem ábyrgir eru fyrir skólamálum á Íslandi í dag fara í massíva vörn (eins og við Íslendingar gerum gjarnan fyrst af öllu áður en við lítum í eigin barm) að eftir að hafa fylgt fjórum börnum mínum í gegn um allt skólakerfið og fylgst með óteljandi öðrum einstaklingum lifa af, þetta oft á tíðum grimma umhverfi (eða lifa það ekki af), þá verð ég að segja að hluti kennara og skólastjórnenda er auðvitað stórkostlegt fólk alveg einstakt í sinni röð og sannkallað hugsjónafólk. Alltof stór hluti er hins vegar á kolröngum stað í lífinu og þeir einstaklingar valda viðkvæmum sálum óbætanlegum skaða. Við verðum að gjörbreyta grunninum og byrja á uppeldisstofnun kennara. Eina leiðin til að laga þjóðarsálina er að taka skólakerfið í gegn, það er of seint að ala upp foreldra og ekki er hægt að breyta heimilunum skólinn er okkar eina von. Ég sting uppá því í alvörunni að Margrét Pála, höfundur Hjallastefnunnar, verði látin endurvinna frá grunni allt er lýtur að því að efla færni í mannlegum samskiptum í menntastofnunum. Hennar grundvallarstefna í uppeldinu er mannrækt, vingjarnlegheit og vellíðan allra sem vinna saman í skólunum. Hlýja og kærleikur er í öndvegi allt annað kemur á eftir og þá meina ég Í FRAMKVÆMD ekki bara í orði! Samkvæmt Hjallastefnunni þurfa allir stanslaust að æfa sig í mannkærleika og sýna sjálfum sér og öðrum umhyggju og virðingu. Á hverjum degi alla daga - er æfingaferli í vingjarnleika og í því að segja fallega hluti við samferðafólk sitt. Má ég biðja um svona grundvallargildi í öllu menntakerfi á Íslandi.
Athugasemdir
Edda. Þetta er eins og talað út úr mínum munni. Ég flutti heim eftir eins árs dvöl í UK í sumar og hef verið þar sem hér með drengina mína í leikskóla. Í leikskólanum í UK var svo mikil hlýja og ástúð að ég fattaði hve köld leikskóla stefna er hér. Kannski er þetta ekki beint stefna heldur vani. Við erum svo eftir á með þetta. Þegar þú segir: Við erum svo aftarlega á merinni í skólakerfinu á Íslandi þegar kemur að því að leggja rækt við sálina og sýna meðbræðrum okkar kærleika. Þá er það svo rétt hjá þér. Hef verið að tala um þetta við fólk en mér finnst ég koma að algjöru áhugaleysi, kannski af því að við erum bara ekki vön að ókunnugt fólk sýni kærleik til okkar eða barna okkar. Enda fannst mér hálf skrítið í fyrstu að sjá þessar konur sitja með drengina mína í fanginu og stjúka þeim og kyssa. Gott að heyra þetta frá þér og það styrkir mig í þeirri trú að ég þurfi að reyna að hafa áhrif á þetta.
Edda ertu alflutt út eða kemur þú aftur fljótlega?
Halla Rut , 6.10.2007 kl. 20:17
Já, þetta er svo mikið satt. Í skólum hérna eru gefnar stjörnur og broskallar fyrir góðan árangur í alskyns fögum og verkefnum sem skilað er til kennarans, sem er auðvitað líka gott. Það fyndnasta, eða eiginlega það sorglegasta var í skólanum hjá stráknum mínum þegar börnunum voru gefnir svartir punktar ef þau voru óþekk eða stríðin eða skiluðu ekki verkefnunum sínum. Minn strákur og 2 aðrir voru ekki búnir að fá neina punkta enda afspyrnu duglegir og mjög kurteisir strákar, hjálpsamir og iðnir. Þeir voru orðnir frekar sárir að vera hvergi á blaði hjá kennaranum og fóru þá að haga sér illa og sleppa því að læra heima til að komast allavega á blað .
En, Já, það er nauðsynlegt að kenna börnunum hlýju og kærleik, held að það sé undirstaða fyrir öll samskipti
Svala Erlendsdóttir, 7.10.2007 kl. 11:14
Það sem ég get verið sammála þér. Gæti skrifað marga kafla í margar bækur um þetta. Stór hópur fólks er sammála um þessa mikilvægi þessara þátta en fáir gera nokkuð sem gerir meira en að gára vatnið. Undantekningin er Margrét Pála og Hjallastefnan.
Viðtalið við þig var skemmtilegt og gott.
Hvernig fer maður að því að leigja sér hús í SD og vera þar í nokkra mánuði? Þetta er snilldarráð til að ljúka mastersritgerðum. Hafið það mikið gott og skemmtilegt.
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 8.10.2007 kl. 21:59
Takk fyrir undirtektirnar kæru konur. Ég verð hér í San Diego fram yfir áramót svo ég komi aðeins inn á bréf Höllu.
Til Guðnýjar Önnu: Til að leigja sér hús í SD þá leigir maður sitt hús heima einhverju góðu fólki (því miður á okurverði), tekur svo námslán og pakkar fjölskyldunni niður og fer. Ég mæli með svona ævintýrum.
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir, 9.10.2007 kl. 23:58
Takk, kæra Edda. Hvur veit nema ég geri þetta bara, er bara nýbúin að borga upp gömlu námslánin mín, passar ágætlega....!
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 15.10.2007 kl. 18:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.