Verslunarmannahelgin

Það er spáð hundleiðinlegu veðri um verslunarmannahelgina. Þeir sem standa mér næst ætla að halda sig heima og kveikja á kertum og elda góðan mat. Unglingnum mínum var boðið út úr bænum en hann trúði mér fyrir því að hann væri búinn að fá nóg af útilegum þetta sumarið (það er ekkert langt síðan hann kom úr tíu daga tjald ferðalagi með bróður sínum og fjölskyldu).

 Ég þakka guði fyrir að sonur minn skuli ekki vera kominn á þann stað í lífinu að heimta að fara á útihátíðir með vinum sínum. Ég fæ andateppu af ótta, bara við tilhugsunina að missa hann í svoleiðis barbarisma. Ég er staðráðin í því að byrja núna að leggja í sérstakan verslunarmannahelgarsjóð og drífa piltinn úr landi ,a.m.k. næstu þrjú, árin svo ég þurfi ekki að takast á við þann pakka! Ég veit að þetta kann að hljóma eins og uppeldisleg uppgjöf – og ég játa mig sigraða. Ég get ekki keppt við það að „allir“ fái að fara á þessar hryllingshátíðir. Gleðihátíðir sem birtast mér ár hvert eins og uppreisn í dýragarði. Það er kannski vegna þess að það sem birtist í fréttum lýsir ævinlega útihátíðum eins og hver og ein sé Sódóma norðursins. Kannski hef ég algjörlega rangt fyrir mér – kannski eru þetta allt saman stórkostlega andlega uppbyggjandi samkomur fyrir unglingana okkar – því er bara haldið vandlega leyndu af fjölmiðlum.

Ég skil ekkert í mótshöldurum að reyna ekki að múta veðurstofunni ár hvert til að ljúga góðu veðri um allt land svo unglingarnir freistist ekki til að vera heima hjá sér í rólegheitum í stað þess að lenda í hressilegum slagsmálum og ofbeldi á útihátíðum!

 Það er búið að selja Galtalækjarskóg. Þar verða væntanlega ekki útihátíðir framar - sorglegt fyrir þá sem nutu fegurðarinnar á tiltölulega áfengislausri útihátíð (ég er að vísu ekki enn búin að fyrirgefa ungtemplurum frá því að þeir svínuðu á hópi skemmtikrafta, sem höfðu eytt mörgum mánuðum í að semja efni , ráða skemmtikrafta og undirbúa flotta þriggja daga helgardagskrá – en fóru slyppir og snauðir frá hátíðinni – það er nefnilega ekki samasem merki á milli þess að halda sig frá áfengi og halda sig frá ósannindum!)

Skemmtið ykkur vel um helgina - þrátt fyrir skítaveður!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Markúsdóttir

Ekkert skítaveður hér í Fljótshlíðinni. Nú spá þeir bara blíðu. Langar bara að benda þér á eina útihátíð - sem reyndar er búið að byggja að mestu yfir eftir að menn keyptu tívolíferlíkið úr Hveragerði - þar sem maður þarf ekki að hafa áhyggjur af unglingnum sínum. Það er Kotmót í Fljótshlíð. Þar var ég á unglingasamkomu áðan og skemmti mér mjög vel (- mér gengur svo blessunarlega illa að fullorðnast). Ég skil vel áhyggjur þínar, ég á einn 12 ára, og það er ekkert annað að gera í stöðunni en að leggjast á bæn og vona að þeir vilji bara fara á Kotmót - nú eða til útlanda. Kotmót kemur sjaldnast í fréttum, engin slagsmál, engin ölvun, ekkert dóp, bara hátt á annað þúsund manns- án vandræða - ekkert fréttnæmt! Nánari upplýsingar á www.gospel.is 

Góða helgi!

Guðrún Markúsdóttir, 4.8.2007 kl. 02:02

2 identicon

Góð hugmynd þessi verslunnarmannahelgar-ferðasjóður. Ég ætla að fá mér svoleiðis. Eitt stykki unglingur á heimilinu og tveir verðandi unglingar. Kallinn nýkominn úr þessu brasi. Enda ekki seinna vænna hann er að verða fertugur.

Annars er lítil ferð á logninu hér suður með sjó, og ég held að veðrið sé ágætt innandyra hjá mér.

Góða helgi

Guðrún B. (IP-tala skráð) 5.8.2007 kl. 00:08

3 identicon

Hæ við eldri sonur og þinn og nafna skruppum í Vatnaskóg í gærdag vegna þess að hann var að skemmta þar í gærkvöldi og þetta var geggjað út í eitt. Þessi skemmtun er á vegum kfm og kfk og þarna voru ofboðslega mikið af unglingum sem voru í alvörunni að skemmta sér rosalega vel og að sjálfsögðu er þetta vímulaus hátíð. Þarna eru yndisleg tjaldstæði falin út um allt inn í skóginum og að sjálfsögðu var brenna í gærkvöldi eins og á öðrum útihátíðum. Við fjölskyldan ætlum pottþétt að bruna þangað á næsta ári og eyða allri verslunarmannahelginni þar með vinum og vandamönnum.

Þannig að það er sniðugt að fara kannski annað hvert ár með unglingana til útlanda og á móti í Vatnaskóg þannig að þeim finnist þeim ekki algjörlega misboðið....

Begga (IP-tala skráð) 6.8.2007 kl. 11:49

4 Smámynd: Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir

Þakka ykkur fyrir að benda mér á þetta. Ég vil endilega prófa þessa staði sem þið lýsið - unglingavænt umhverfi!

Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir, 7.8.2007 kl. 09:27

5 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Þetta er sko engin uppgjöf, bara lógík! Áður en dætur mínar fæddust ákvað ég að við yrðum ekki á landinu um verslunarmannahelgi fyrr en þær væru svona um 25 ára aldur. Við fórum til Kaupmannahafnar um nýliðna verslunarmannahelgi. O.K., ég skal alveg viðurkenna að það var óþarfa hystería, enda eru þær bara rúmlega sex ára, en það er ágætt að venja þær við þetta sem fyrst.

Ragnhildur Sverrisdóttir, 7.8.2007 kl. 10:34

6 Smámynd: Hugarfluga

Ji, Edda! Ertu farin að blogga! Síðasta færslan mín var einmitt tilvitnun í "sketch" með þér af Úllen Dúllen Doff plötunni. Algjört uppáhalds uppáhald

Hugarfluga, 7.8.2007 kl. 22:13

7 Smámynd: Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir

Takk hugarfluga - viltu vera bloggvinur minn??

Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir, 8.8.2007 kl. 11:44

8 Smámynd: Bjarney Hallgrímsdóttir

Er einmitt nýbúin að stofna ferðasjóð og spurnig að nota hann á næsta ári þegar unglingurinn verður orðin 15...

Unglingurinn var bara prúður þessa helgina á Neistafluginu en aldrei að segja aldrei, maður skellir sér bara erlendis næsta ár

Bjarney Hallgrímsdóttir, 8.8.2007 kl. 14:40

9 Smámynd: Jón Svavarsson

Frábærar hugmyndir stelpur, það er besta forvörnin að hafaofanaf fyrir unglingunum og láta þau finna það sjálf að okkur er ekkert sama. Ég tala nú ekki umm ef þeim er boðið í ferðir erlendis eða bara eitthvað annað innan lands annað en útihátíð. Sjálfur var ég sem unglingur ásamt félögum mínum EKKI að skemmta mér á slíkum hátíðum, þegar Saltvík "71 var haldin á Kjalarnesinu þá gáfum við kost á okkur í gæslu og vorum þar með óeinkennisklæddum lögreglumönnum sem síðar reyndust okkar bestu vinir og allt frá því þá, þá hef ég aðeins komið á nokkrar útihátíðir sem starfsmaður og hef síðan einsett mér það að halda mínum börnum frá slíkum samkomum sem því miður hafa verið ansi misjafnar.

Jæja en það er frábært að vera komin í blogvinahóp Eddu, því ég vitna einnig oft í Túrillu sem Edda fór svo vel með í Úllendúllendoff þáttunum með Jónasi og fleirum, hreint frábærir og stútfullir af góðum (húmor) íslenskri kímnigáfu.

Kær kveðja 

Jón Svavarsson, 15.8.2007 kl. 22:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband