7.7.2007 | 13:11
Sígaunablóð og draslsöfnunarárátta
Ég er með æðiber í rassinum. Það sagði amma mín við mig. Ég er nefnilega haldin þeirri áráttu að verða með reglulegu millibili að skora sjálfa mig á hólm, fleygja öryggismottunni og hræða mig svolítið. Ég pakka gjarnan niður einhverju dóti og hendist út á land eða út í heim og kippi með mér þeim fjölskyldumeðlimum sem ég ræð yfir hverju sinni. Einu sinni flutti ég til Mallorca í 5 mánuði og gerðist fararstjóri. Næst var það 6 mánaða dvöl á Ródos þar sem ég var líka í fararstjórastarfi. Ég hef búið á Sólheimum í sjö mánuði þar sem ég fékk að halda utan um besta leikhóp í heimi, ég bjó á Bretlandseyjum í eitt ár og sl. sumar bjó ég á Bifröst og er einmitt að pakka niður núna til að ljúka háskólanáminu þar og mun hreiðra um mig á heimavistinni fram í ágúst - svo hendist ég í nokkra mánuði til Californíu til að klára meistararitgerðina mína.
Ég trúi aldrei mínum eigin augum þegar ég fera að skipuleggja tiltekt vegna svona flutninga. Hvernig getur lítil fjölskylda safnað svona miklu drasli?
Mig skortir gjörsamlega þá hæfileika að geta gengið skipulega til verks við að koma reglu á umhverfi mitt. Ég snýst bara í hringi og róta í hrúgum og sest svo bara út í garð. Ég væri sennilega flutt út í garð ef Garún mín og Guðbjörg, plús Fríða og Margrét hefðu ekki ráðist á haugana og byrjað að flokka draslið í snyrtilegar hrúgur. Svona eru verndarenglarnir góðir við mig, senda mér bestu vini í heimi. Þessar dásamlegu vinkonur mínar komu að mér þar sem ég starði sljóum augum á sláttuvélina og tautaði í sífellu að það væru ótrúlega fáir dagar þar til leigjandinn minn tæki við íbúðinni og allt væri ennþá á hvolfi.
Garún breyttist í teiknimyndafígúru þar sem hún brá sér í iðnaðarmanna-samfesting, tók sér kúbein í hönd og braust inn í litlu geymsluna sem einu sinni var sjónvarpsherbergi og eftir smá stund flaug allt draslið út á gang þar sem hinar tóku við því og bjuggu til snyrtileg kennileiti þannig að kvíðasjúklingurinn í garðinu gæti tekið ákvarðanir um hverju mætti henda og hvað ætti að varðveita.
Hugsa sér að eiga svona vini. Ég er búin að bjóða þeim öllum að sitja úti í þeirra görðum í kvíðakasti þeim til stuðnings þegar kemur að tiltekt eða flutningum í þeirra fjölskyldum.
Auðvitað ætti ég að henda helmingnum af draslinu sem er í kössum í óteljandi geymslum út um allt - ég veit það alveg .. en ég get það ekki.
Ég viðurkenni vanmátt minn
Ég ætla að stofna sjálfshjálparsamtök draslara fyrir fólk eins og mig, sem haldið er draslsöfnunaráráttu - þá getum við hist reglulega og stutt hvert annað í draslsöfnuninni.
Velkomin í hópinn!
Athugasemdir
Ég geng hér með í sjálfhjálparhópinn þinn. Ég bý í 94 ferm og er 5 barna móðir, kvarta yfir drasli en tími ekki að henda neinu. Það gætu jú orðið not fyrir þetta allt einhverndaginn.´Geymslan mín er jafnfull, þar úir og grúir öllu saman allt frá fótanuddtækinu fræga og til ástarbréfa frá unglingsárunum
Elín Katrín Rúnarsdóttir. , 7.7.2007 kl. 13:26
Einhversstaðar las ég að maður þyrfti að henda reglulega til að hleypa nýju að. Hm.. það er ekkert að gerast hjá mér. Stendur allt einhvernveginn fast. I wonder why?
Skemmtileg ofvirkni hjá þér bloggvinkona. Um að gera að þeysast um heiminn.
Jenný Anna Baldursdóttir, 7.7.2007 kl. 13:45
Ég þarf einmitt að fara að drífa mig í að fara í gegnum fullt af dóti fyrir flutninga og það er alveg ótrúlegt hvað maður tímir aldrei að henda neinu..... jafnvel einhverju semmaður hefur ekki notað í mörg ár,,,, maður gæti allt í einu þurft á því að halda
Ingveldur (IP-tala skráð) 7.7.2007 kl. 19:48
... en það er samt gott að eiga smá drasl... þá er alltaf von á að finna eitthvað þegar það vantar... ég er t.d. alltaf með fullt af drasli í skottinu í bílnum mínum... svo ef ég lendi í vandræðum á ferðum mínum um landið, þá hef ég alltaf smá von um að í draslinu sé eitthvað sem getur bjargað mér...
Brattur, 7.7.2007 kl. 20:13
Takk fyrir að bjóða mér í klúbbinn, Edda mín, ég verð örugglega formaður, ritari og gjaldkeri þar. Þú ættir að sjá dótið sem fylgir mér. Ég veðja, að ég slæ þig út. En þú slærð mig út í því að þora að halda á nýjar slóðir, taka ný verkefni, skora ný viðfangsefni og aðstæður á hólm. Húrra fyrir þér!
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 7.7.2007 kl. 22:05
Takk, ég þigg inngöngu í samtökin. Er samt hætt að segja að það sé drasl hjá mér eftir að einn heimilisvinurinn leiðrétti mig og sagði að heima hjá mér væri bara ,,frjálslegt"! Stundum er svo frjálslegt að maður getur varla gengið um - og finnst maður varla geta um frjálst höfuð strokið - af því að maður tímir ekki að henda neinu og svo þegar mann vantar eitthvað, þá finnst það ekki, fyrir drasli. Mjög frjálslegt.
Guðrún Markúsdóttir, 8.7.2007 kl. 00:34
Enginn veit hvað átt hefur fyrr en flutt hefur !
Anna Gísladóttir, 12.7.2007 kl. 23:27
Góða helgi
Elín Katrín Rúnarsdóttir. , 13.7.2007 kl. 17:35
klukk
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, 13.7.2007 kl. 22:32
Já takk... ég vill fá svona klúbb. Þýðir það þá að meðlimir klúbbsins komi og hendi dóti hjá hvort öðru. Það er nefnilega miklu einfaldara að henda frá öðrum en sjálfum sér.
Iwanna Humpalot (IP-tala skráð) 14.7.2007 kl. 16:39
Pant vera með í þessum klúbbi.
og velkomin í bloggvinahópinn minn
Marta B Helgadóttir, 16.7.2007 kl. 09:28
Halló Sígauni. Ertu búin afhenda, því ekki ertu búin að henda. Nei nei segi svona.
Garún, 16.7.2007 kl. 11:51
Ég er búin að klukka þig. Næsta blogg verður að vera 8 staðreyndir um sjálfan þig og síðan verður þú að klukka 8 manns,,,,,,,,,
Garún, 18.7.2007 kl. 02:04
Ég væri sko til í vona klubb,,,þar sem meðlimir flokka og henda fyrir hvort annað hehe.
Ég til dæmis flutti til útlanda fyrir 5 árum, og var auðvitað með allt "dótið" með mér,,sumt var ekki tekið upp úr kössunum í útlöndum (semsagt sett í geymsluna þar) og flutt aftur heim í sama kassa og er enn í geymslunni hjá mér í dag (3 árum seinna) í sama kassa,,,hmmmmm,,,skyldi vera eitthvað mikilvægt í þeim????
Gaman að lesa bloggið hjá þér
Kv, Ásgerður
En mér dettur ekki í hug að henda þessum kössum,,ónei
Ásgerður , 19.7.2007 kl. 08:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.